Fyrirbyggja fósturlát?

Spurning:

19 ára – kona

Ég er að velta fyrir mér ýmsu með meðgönguna. Ég og unnustinn minn erum mikið fyrir börn og okkur langar í eitt þegar við erum tilbúinn. Það sem ég er að velta fyrir mér er það hvernig maður varast að missa fóstur? Hver er aðalhættutíminn á meðgöngunni? Hvað getur maður gert til að koma í veg fyrir þetta gerist? Og líka til þess að fóstrið látist ekki? Ég veit ekki hvað ég myndi gera ef það myndi koma fyrir okkar fyrsta barn.

Svar:

Sæl og blessuð.

Fósturlát eru algengari en margan grunar og talið er að fósturláti verði í allt að 15% þungana og að allt að þriðja hver kona missi fóstur einhverntíma á frjósemisskeiðinu. Fósturlát getur stafað af göllum hjá fóstrinu, fylgjuvefnum eða sjúkdómum hjá móðurinni en sjaldnast er orsökin kunn.

Það sem þið getið gert til að reyna að fyrirbyggja fósturlát er fyrst og fremst að lifa heilbrigðu lífi. Í því felst að gæta að mataræðinu, hreyfa ykkur hæfilega, neyta einungis áfengis í hófi eða sleppa því alveg, forðast lyf nema samkvæmt læknisráði, alls ekki að reykja og talið er að neysla hinnar verðandi móður á folinsýru fyrstu 12 vikur meðgöngunnar minnki líkur á fósturgöllum.

Það er mjög jákvætt hjá ykkur að eignast ekki barn nema að vel ígrunduðu máli því það breytir lífi ykkar varanlega og vil ég óska ykkur velfarnaðar.

Kveðja,

Þórgunnur Hjaltadóttir, hjúkurnarfræðingur og ljósmóðir