Fyrirbyggjandi þættir varðandi svefnvandamál barna

Getum við gert eitthvað til að fyrirbyggja svefnvandamál hjá ungum börnum?

Þetta er algeng spurning nýbakaðra foreldra og svarið við henni fer eftir því hver er spurður. Ljóst er að bæði geta foreldrar gert ýmislegt og einnig getur heilbrigðiskerfið gert margt. Í þessum stutta pisli ætla ég að fjalla lítillega um nokkra þætti til umhugsunar fyrir þá sem hafa áhuga á þessu viðfangsefni.

 

Hafa reglu á drykkjartímum og svefntímum

 

Að sofa og drekka eru þættir sem eru samfléttaðir hjá ungum börnum. Sterk tengsl eru á milli þess að barnið drekki oft og að það sofi stutta lúra. Barn sem sefur stutta lúra á daginn er líklegra til að sofa stutta lúra á næturnar.

Eftirfarandi atriði er gott að hafa í huga frá upphafi:

· Hafa í huga frá fyrsta degi að hjálpa barni að sjá mun á nóttu og degi. Á næturnar er myrkur, þá er ekki spjallað og algjör lámarks þjónusta í gangi.

· Kenna barninu í rólegheitunum að svefn og brjóstagjöf (eða pelagjöf) er ekki órjúfanleg tvenna. Það þarf að kenna barni að liggja og sofna í rúminu sínu án þess að það sé að drekka (þetta tekst oft betur fyrri part dags).

· Hafa ákveðna lengd á milli brjósta-/ pelagjafa. Þegar barnið er nýfætt er raunhæft að hægt sé að hafa lengri tíma milli gjafa fyrri part dags og styttri seinnipart dags, þá vakir barnið meira og drekkur oftar t.d. 3 tíma fyrri part dags og 2 tíma seinni partinn.

Best er ef barnið hefur ákveðinn svefnstað og ég mæli með eigin rúmi handa öllum börnum. Kenna á barni frá upphafi að sofna og sofa í sínu rúmi. Ef foreldrar vilja láta barnið sofa í rúmi foreldra þá ættu þeir allavega að láta barnið sofna (fyrst að kvöldi) í eigin rúmi. Það er slysagildra að láta börn sofna uppi í og fara síðan frá þeim sofandi. Best er að börn séu lögð á ákveðin stað að sofa og á ákveðnum tíma. Einnig að börnum sé gefið að drekka á ákveðnum tímum og passið að gefa barninu ekki alltaf að drekka útaf liggjandi, það er oft erfitt að venja þau af því og þau eiga það til að sofna þannig frekar en ef setið er með þau.

Börn eru í eðli sínu fastheldin og fá öryggi og ró ef þau hafa hlutina í nokkuð föstum skorðum.

Brjóstagjöf:

Brjóstamjólk er besta næring sem þú getur gefið barninu þínu, það er óumdeilanlegt. Það ráð sem foreldrar sem leita til mín hafa oft fengið er að best sé að láta barnið ráða ferðinni í hve oft því sé boðin brjóstamjólk, best sé að hafa barnið uppi í hjá móður þannig að barnið og brjóstið sé sem næst hvort öðru.

 

Hættan við þessa aðferð er að barninu sé boðið brjóst alltaf þegar það grætur, barnið lærir að aðal huggunin sé að drekka og foreldrar eiga þá erfiðara með að læra hvað grátur barnsins þýðir, en það getur verið mjög misjafnt. Barn er ekki alltaf svangt eða veikt þegar það grætur.

Grátur barns getur þýtt meðal annars:

§ að það sé ringlað yfir öllu því áreyti sem er í kingum það og þurfi að vera í ró og næði eða

§ að það sé þreytt og þurfi að fá smá knús eða

§ að það sé með vindgang og þurfi að sjúga snuð eða láta strjúka magann eða

§ að það sé pirrað og þurfi aðeins að fá útrás eða

§ að það sé bara að þrasa aðeins.

Oft getur verið gott til að hugga ungbarn að vefja það í sæng eða teppi, setjast með það í fanginu, dempa ljósið og hafa smá suð í gangi, það getur verið suss eða söngl, rennandi vatn eða tónlist með ákveðnum takti. Þannig kennum við barninu slökun.

Ef barni er alltaf boðið brjóst þegar það grætur er hætta á því að móðurbrjóstið verði notað sem snuð. Þegar barnið eldist, oft um 4-6 mánaða þá fer það að finna meira til sín og vill ráða meiru um hvernig hlutirnir eru í kringum það. Ef barnið notar móðurbrjóstið sem snuð er hætta á að það fari að vakna oftar á næturnar og fjölga næturgjöfum í stað þess að fækka þeim eins og gert er ráð fyrir með aldrinum. Einnig getur barnið orðið mjög ákveðið á það að mamma á ein að sinna því í tengslum við svefn.

Börn fæðast ekki sem óskrifað blað. Þau fæðast með ákveðin lundarfarseinkenni sem hafa áhrif á það hvernig þau bregðast við hinum ýmsu áreitum og atvikum. Sum eru viðbrigðin og viðkvæm, önnur eru áköf og ör, og enn önnur meðfærileg og auðveld.

Börn eru misjöfn og þurfa þar af leiðandi aðeins mismundandi leiðir í uppeldi. Til dæmis getur einu barni hentað að sofa uppi í á meðan annað sefur verr þannig. Sum börn fara alveg átakalaust í ákveðin rytma eða takt varðandi svefn á meðan önnur eins og leita í óreiðuna og þurfa talsverða aðstoð til að læra að sofa vel.

Arna Skúladóttir
Hjúkrunarfræðingur á Göngudeild barna með svefnvandamál
Barnadeild Landspítal
a í Fossvogi