Fyrirspurn um sjónskekkju

Spurning:

Sæll.

Ég fór í sjónmælingu hjá auglækni fyrir rétt tæpu ári síðan og mældist með -1,5 á öðru og -1,25 á hinu en ekki með sjónskekkju.

Núna er ég loks að fá mér gleraugu og fór í sjónmælingu hjá sjóntækjafræðingi (í gleraugnaverslun) til að athuga hvort sjónin hefði versnað. Hann mældi sama styrkleika og augnlæknirinn (-1,5 og -1,25) en sjónskekkju.

Þar sem ég veit að sjónskekkjugler eru talsvert dýrari en venjuleg og sjóntækjafræðingar í gleraugnaverslunum eru væntanlega ekki alveg hlutlausir langar mig því að spyrja:

Er mögulegt að sjónskekkja hafi myndast á svo stuttum tíma?

(Ég er tæplega þrítug og nærsýnin hefur verið að smáaukast síðustu u.þ.b. 8 árin, en virðist hafa staðið í stað sl. ár).

Með von um svar og fyrirfram þökkum.

Svar:

Þetta er mjög góð spurning. Sjónskekkja er mjög algengur sjónlagsgalli og getur breyst nokkuð á milli ára. Það er því möguleiki að lítil sjónskekkja hafi myndast á einu ári. Með lítilli sjónskekkju þá á ég við 0.25 – 0.50 díoptríur.

Hitt er svo annað mál að sjóntækjafræðingar mega samkvæmt lögum ekki sjónmæla, þannig að þarna hefur verið framið lögbrot ef viðkomandi sjóntækjafræðingur hefur ætlað að selja þér gleraugu út á sjónmælingu sína. Aðeins augnlæknar mega mæla sjón og skrifa út gleraugnavottorð.

Ég myndi því fara til augnlæknis þíns og kanna málið.

Bestu kveðjur og gangi þér allt í haginn.

Jóhannes Kári Kristinsson, augnlæknir Sjónlag hf.