Gæti verið að um hormónaójafnvægi að ræða?

Spurning:
Sæl Dagný,

ég er 39 ára gömul og varð fyrir því að það byrjaði að blæða á 8 viku meðgöngu hjá mér og ég missti fóstrið. Þetta er í fyrsta sinn sem þetta kemur fyrir hjá mér en ég á 3 eðlilegar meðgöngur að baki. Gæti verið að um hormónaójafnvægi vegna aldurs hafi verið að ræða í þessu tilfelli? Ef svo er hefði verið hægt að koma í veg fyrir að þetta gerðist með einhverjum hætti s.s. hormónamælingum og/eða hormónagjöfum? Ég er nefnilega rög við að reyna aftur að verða þunguð af ótta við að þetta geti endurtekið sig.

Svar:
Það er hæpin skýring á þessu fósturláti að um hormónaójafnvægi hafi verið að ræða. Hormónarnir eru svipaðir hjá konum þar til þær komast á breytingaskeið og þá hafa þeir þau áhrif að frjósemin minnkar. Hins vegar eru fóstugallar algengari eftir því sem maður eldist og það gæti verið skýring fósturlátsins – þ.e. að fóstrið hafi verið gallað og þess vegna ekki lifað. Ef þú verður barnshafandi á ný áttu rétt á fósturgreiningu við 12 vikna meðgöngu þar sem mæld er hnakkaþykkt og metnar líkur á litninga- og hjartagalla.

Kveðja, Dagný Zoega, ljósmóðir