Gaul í þörmum/ristli?

Spurning:
Er rúmlega tvítugur og hef verið með, undanfarin tvö ár, óhemjumikið gaul í þörmum/ristli sem er oftast á sama stað þ.e. neðarlega hægra megin við kvið (byrjaði eftir smá stelpuvesen:)). Þetta er byrjað að pirra mig dálítið mikið og ég hef ekki verið með mikla matarlyst (samt mismunandi) á þessum tíma en reyni að borða samt eins og ég get (borða frekar óreglulega). Einnig finnst mér eins og ég geti ekki þyngst, en það hefur verið þannig frá blautu barnsbeini.

Hægðirnar eru oftast blautar nema þegar ég hef borðað vel og reglulega, kannski í nokkra daga í röð, þá virðist það vera í lagi. Maginn er oftast þaninn og það fylgir mikill vindgangur, oftast samt á kvöldin (ætla að prófa Aeropax). Ég reyki að staðaldri og drekk (bara um helgar) en samt um helgar þá er ég með minnstu matarlystina, sem byrjar samt um strax um morguninn á föstudegi. Gæti trúað að þetta orsakast af kvíða? (Er stundum ,,frekar" kvíðinn í sumum aðstæðum og eftir þær aðstæður þá gæti ég ekki hugsað mér að borða – myndi ekki koma því ofan í mig).

Hvað haldið þið að þetta sé?
Með fyrirfram þökk.

Svar:
Kvíði og streita geta orsakað mörg líkamleg einkenni, m.a vandræði í maga og minnkaða matarlyst. Þú þarf að hugleiða hvort það sé eitthvað sem getur valdið þér kvíða og leita þér aðstoðar ef þörf er á hjá sálfræðingi eða geðlækni. Ekki veit ég hvað þú drekkur mikið en mikil drykkja um hverja helgi hefur auðvitað áhrif á líkamann. Ég mæli með að þú hugsir aðeins um hve mikið þú drekkur og hvort það séu umhverfisáhrif sem valda þér magaverkjum. Þá geta óreglulegir matartímar t.d. hjá vaktavinnufólki leitt til mikilla vandamála með maga og meltingu. Ég mæli þó með að þú byrjir fyrst á að fara í athugun hjá heimilslækni svo hægt sé að útiloka líkamlegar orsakir.  

Brynjar Emilsson
Sálfræðingur
s: 661-9068