Gengur illa með brjóstagjöfina

Spurning:

Kæra Dagný.

Ég frétti að þú værir einn færasti brjóstagjafaráðgjafinn hér á landi, svo að mig langar að ráðfæra mig við þig. Þannig er að ég er með tæplega 5 vikna gamalt barn á brjósti og er ennþá að drepast í brjóstunum.Ég byrjaði á því að fá sár á brjóstin og þurfti að nota hattinn til að hlífa brjóstunum í nokkra daga. Svo tók stálminn við og ég hef bara mjög lítið lagast eftir það. ég er búin að fara á sveppasýkingarlyf en það hafði ekkert að segja, og núna er ég að borða kalk (2000 mg á dag) og magnesium (1000 mg á dag) en það er ekkert að virka heldur ( þetta er 5. dagurinn)

Hjúkrunarfræðingurinn heldur að þetta sé einhver spassi í brjóstunum og heldur að ég þurfi frekar lyfjagjöf (eitthvað vöðvaslakandi). Getur það verið? Geirvörturnar eru rauðar og bláar og stundum eru þær hvítar fremst. Ég er búin að fara tvisvar niður á Landspítala og þar hef ég fengið leiðbeiningar um það sem ég hef notað hingað til. Það er kannski best að geta þess að ég er með vefjagigt sem ég held vanalega niðri með þolþjálfun, lyftingum og reglulegum ferðum til sjúkraþjálfa, en er ekkert farin að hreyfa mig eftir fæðingu (nema gönguferðir með vagninn) og hef því verið slæm í skrokknum öllum síðustu vikur. Ég hef þó ekki viljað fara að æfa fyrr en brjóstin eru orðin sæmileg.

Með von um ráðleggingar.

Svar:

Sæl og til hamingju með barnið.

Ekki veit ég nú hvort ég er sú færasta – en ég skal reyna að svara eftir bestu getu. Reyndar er oft erfitt að átta sig á brjóstavandamálum nema að hafa brjóstin og barnið fyrir framan sig. Ef hjúkrunarfræðingurinn sem kom heim sá barnið taka brjóst ætti hún að hafa greint hvort það tók rétt eða ekki. Algengasta orsök eymsla og sára á geirvörtum er vitlaust tak barnsins á geirvörtunni. Sárin sem þú fékkst í upphafi benda til að unginn hafi nú ekki verið alveg að taka geirvörturnar nógu langt aftur í munninn og það er oft byrjunin á vandræðunum. Taki börn brjóstin vitlaust fyrstu dagana getur verið vandkvæðum bundið að kenna þeim að taka rétt. Stundum klemmir barnið svo fast saman kjálkunum þegar það sýgur að geirvörturnar verða hálf blóðlausar og þegar barnið svo sleppir, streymir blóðið fram í þær með fylgjandi kvölum, eins og þegar um naglakul er að ræða. Þá eru geirvörturnar hvítar þegar barnið sleppir en verða svo eldrauðar og sjóðheitar þegar blóðið streymir fram í þær. Verkirnir sem fylgja eru sviði eða brunatilfinning og leiða oft langt inn í brjóstið. Svona verkir og þessi einkenni geta reyndar líka gerst ef um krampa er að ræða í æðunum í brjóstinu – svo þar gæti hjúkrunarfræðingurinn haft rétt fyrir sér. Slíkur krampi orsakast stundum af kulda, en sjaldnast finnur maður nokkra skýringu á þessu fyrirbæri. Svona krampar dvína yfirleitt þegar frá líður en geta þó varað í margar vikur. Það sem reynist best í þessum tilfellum er að gefa oft og passa að barnið taki brjóstið þá rétt, gæta þess að ekki myndist þrýstingur í brjóstunum, nudda þau mjúklega með olíu (t.d. soya) og halda að þeim hita, t.d. með ullarstykki.

Grundvallaratriðið við öll eymsli í geirvörtum er þó að barnið taki geirvörturnar rétt – nægilega aftarlega í munninn til að þær snerti ekki harða góminn þegar það sýgur. Ef þér finnst barnið klemma fast og vera stíft í kjálkunum gætir þú prófað að nudda kjálkana mjúklega fyrir hverja gjöf og einnig gefst oft vel að strjúka tanngarðinn frá miðju og út til hliðanna nokkrum sinnum fyrir gjafir. Síðan setur maður hreinan, naglaklipptan fingur á tunguna og togar hana soldið til sín nokkrum sinnum. Þetta er gert til að slaka á kjálkunum og gefa barninu betri tilfinningu fyrir því hvernig það á að sjúga.

Til að útiloka sýkingar í brjóstunum, bæði sveppa- og bakteríu-, teldi ég æskilegt að tekið yrði mjólkursýni til ræktunar. Sveppasýkingar geta nefnilega valdið svipuðum verkjum og ofangreind vandamál.

Hvað varðar æfingarnar, þá held ég að svo framarlega sem þú hefur næga mjólk fyrir barnið þá ætti þér að vera óhætt að byrja núna, þótt brjóstin séu svona. Æfingarnar gætu meira að segja hjálpað ef um krampa í æðum er að ræða. Farðu bara hægt af stað og gættu þess að ekki slái að þér á leiðinni frá æfingunum.

Vonandi gagnast þetta þér eitthvað en vertu endilega í sambandi við hjúkrunarfræðinginn þinn – hún er greinilega vel að sér í brjóstagjöfinni.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir