Get ég losnað við þá áráttu að kreista bólur?

Spurning:
Hvernig get ég losnað við þá áráttu að kreista bólur og klóra í sár? Ég hef nú í rúm sjö ár barist við þá áráttu að kreista allar bólur og klóra í öll sár sem ég finn á mér. Ég geri mér vel grein fyrir því að ég ætti ekki að vera að gera þetta, en ég geri þetta bara samt og ræð ekki við það. Ég stend stundum tímunum saman fyrir framan spegil að leita að einhverju til að kreista og prófa að kreista allt saman og enda með eldrautt og bólgið andlit. Það versta við þetta er að þetta getur stundum leitt til mikils þunglyndis, ég er stundum sannfærð um að ég hljóti að vera ógeðslegasta og heimskasta manneskja í heimi og ég græt og græt, ég treysti mér oft ekki út því að ég vil ekki að neinn sjái mig. Þetta bitnar á náminu þannig að oft þegar ég er að reyna að læra þá get ég ekki einbeitt mér því mig langar svo mikið að fara inn á bað að kreista bólur. Mér finnst bara líf mitt leggjast í rúst út af þessu. Ég vil líta vel út og fá að lifa lífinu en þetta hindrar það, þetta skemmir allt fyrir mér. Er einhver hjálp við þessu?

Svar:
Sæl.
Þú lýsir ákveðinni áráttuhegðun sem þú átt erfitt með að stöðva. Ekki veit ég hvort þú ert með mikið af bólum eða hvort þú mikil fyrir þér hvað þetta er áberandi. Þú getur leitað ráða hjá húðsjúkdómalækni því hægt er að vinna á þessu með lyfjagjöfum. Áráttuhegðun er þó oft tengd kvíða og kannski í þínu tilfelli kvíða fyrir að aðrir taki eftir bólunum. Hægt er að vinna á þessu með kvíðastillandi lyfjum en best er þó að ræða við sálfræðing til að meta þetta betur. Þá eru oft reyndar atferlisaðferðir til að stöðva hegðunina en nauðsynlegt er að þú ræðir við fagaðila til að meta bæði orsakir fyrir þessu og hvað það er sem viðheldur hegðuninni.
Gangi þér vel.
Brynjar Emilsson sálfræðingur