Geta eiturlyf og áfengi valdið getuleysi?

Spurning:

Komið þið sæl.

Ég er búin að vera að velta einu fyrir mér í sambandi við getuleysi. Málið er það að ég er búin að sofa nokkrum sinnum hjá strák eftir djammið. Ég veit að hann lifir ekki beint fyrirmyndar líferni. Hann var á kafi í dópi fyrir svona 2-3 árum (kókaín, spítt o.s.frv.) en núna drekkur hann eiginlega bara áfengi …. en hann drekkur mikið af því og næstum alltaf báða dagana um helgar. Hann hefur alltaf verið fullkomlega graður þegar við sofum saman og loftið rafmagnað af kynferðislegri spennu, en það er samt eins og limurinn verði aldrei alveg „stífur“. Ég hef alltaf skellt skuldinni á það að hann hafi verið of fullur en núna er ég farin að halda að hann sé bara orðinn getulaus.

Hvað tekur það dóp og/eða áfengi langan tíma að eyðileggja menn í tippinu? Er þessi skemmd varanleg eða gæti getuleysið gengið tilbaka ef að hann tæki upp hollari lífshætti? Eða er ég kannski svona hrikalega lítið kynæsandi að maðurinn missir alla náttúru? Hvers vegna er hann þá svona graður ef hann getur svo ekkert gert?

Ég vona að þú hafir einhver svör handa mér, ég er endalaust að velta þessu fyrir mér …. kannski er honum viðbjargandi.

Svar:

Það að vera fullkomlega graður hjálpar lítið ef menn eru útúrdrukknir. Ef hann notar „eiginlega bara áfengi“ gefur það til kynna að hann noti einhver lyf líka. Þarna er komin skýring á stinningarvandamálum þessa manns. Ekki halda eitt augnablik að það sé þér að kenna. Áfengi og lyf hafa neikvæð áhrif á stinningu og eru þau áhrif vanalega aðeins tímabundin. Þó er það þekkt að mikil drykkja, lyf og miklar reykingar geta haft slæm áhrif á stinningu til lengri tíma, og það að hætta að nota áfengi og tóbak hefur góð áhrif á kynlífið sé hætt í tæka tíð. Það getur þó tekið líkamann tíma að jafna sig af þessu.

F.h. Félags um forvarnir læknanema, forvarnir.com
Jón þorkell Einarsson, læknanemi