Getnaðarvarnir eftir fæðingu

Spurning:

Sæl Dagný!

Mig langar að spyrja um getnaðarvarnir eftir fæðingu. Kunningjakona mín benti mér á sprautur sem hún fær á þriggja mánaða fresti. Hvers vegna er þessi getnaðarvörn ekki algengari en raun ber vitni? Er hún ekki heppileg eftir fæðingu, þegar kona er með barn á brjósti?

Með fyrirfram þökk.

Svar:

Sæl.

Jú, það er rétt hjá þér að þessi getnaðarvörn er ágæt fyrir konur með barn á brjósti. Getnaðarvarnarsprautan er progesteronhormón sem gefið er með sprautu í vöðva á þriggja mánaða fresti. Öryggi fyrir getnaði er um 99%.
Blæðingar verða oft óreglulegar og yfirleitt minnka þær að magni. Eftir að hætt er að nota lyfið geta liðið nokkrir mánuðir þar til blæðingar verða reglulegar og frjósemi sú sama og áður. Helstu aukaverkanir eru þær sömu og við pillunotkun, þ.e. þyngdaraukning og brjóstaspenna. Ekki er mér kunnugt um hversu algengt er að þessi getnaðarvörn sé valin, en líklega fælir sprautan margar konur frá og að auki að þurfa að fara til læknis á þriggja mánaða fresti.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir