Getnaðarvarnir fyrir karlmenn aðrar en smokkur?

Spurning:

Til hamingju með glæsilegan og gagnlegan vef!

Mín fyrirspurn er:
Eru einhverjar getnaðarvarnir á markaðnum fyrir karlmenn, þá í formi pillu eða sprautu?

Ég lenti í því að vera með konu í tvö ár sem sagðist allan tímann vera á getnaðarvarnarpillu en síðar kom í ljós að hún var að reyna að verða ófrísk allan tímann. Við eignuðumst litla telpu fyrir tveimur árum en sambandið endaði áður en sú litla kom í heiminn. Ég elska barnið mitt og lifi fyrir hana en barneign var bæði ótímabær og ekki mitt val.

Nú er ég í góðu sambandi og konan mín er á p-pillunni en ég nota engu að síður smokk þar sem við höfum ákveðið að bíða með barneignir þar til við erum búin að koma okkur betur fyrir í lífinu, þó að smokkurinn sé að sjálfsögðu þreytandi stemmningsbrjótur, þá er það betri kostur en að vera með annað barn á meðlagi og fá einungis að hitta það aðra hverja helgi þar sem íslenskir feður eru mjög réttlausir hvað forræði og umgengisreglur varðar.

Ég nota smokk að staðaldri þar sem maður tryggir ekki eftir á í þessum málum, en veit jafnframt að ég myndi njóta kynlífsins betur án hans.

Hvaða möguleikar eru á íslenskum markaði fyrir karlmenn í getnaðarvörnum?

Svar:

Sæll.

Það er gott þegar menn sýna slíka ábyrgðartilfinningu. Því miður eru ekki komnar neinar öruggari varnir fyrir karlmenn en smokkur. Pillur fyrir karla eru í tilraunum víða um heim og í notkun í þróunarlöndum, en þær eru ekki nógu öruggar ennþá, allt að 15% þungunartíðni sem er alltof mikið óöryggi enn sem komið er. Þessi þróun heldur samt áfram og verður sennilega lokið með „karlapillu“ innan 5 ára.

Kveðjur,
Arnar Hauksson dr. med.