Getur bólusetning stuðlað að exemi?

Spurning:
Við erum ung hjón sem eignuðumst okkar fyrsta barn fyrir 2 mánuðum. Nú erum við að velta fyrir okkur hvort nauðsynlegt sé að bólusetja litla drenginn okkar strax við 3ja mánaða aldur. Nú er exem mikið í fjölskyldum okkar og við viljum gera hvað sem er til að reyna að koma í veg fyrir að drengurinn fái svoleiðis. Því að annað okkar hefur upplifað að vera með barnaexem frá unga aldri.

Við höfum heyrt og lesið um að bólusetningar fyrir 6 mánaða aldur geti stuðlað að exemi. Er eitthvað til í því?? Er eitthvað sem mælir gegn því að geyma bólusetningar ungabarns til 6 mánaða aldurs? Við erum ekki á leiðinni frá Íslandi. Börn sem hafa ekki verið bólusett fyrr en 6 mánaða í fjölskyldu annars okkar hafa sloppið við exem en hin flest fengið það, gæti verið tilviljun.

Með von um svör.

kveðja
Umhyggjusamir foreldrar

Svar:
Það er öllum foreldrum í sjálfsvald sett að láta bólusetja börn sín á þeim tíma sem þau velja sjálf. Aftur á móti mælum við í ung- og smábarnavernd með bólusetningu tímanlega til að tryggja það að barnið fái ekki þá sjúkdóma sem bólusettt er gegn og eru hættulegir heilsu þeirra.

Það bóluefni sem nú er í notkun og ætlað fyrir 3, 5 og 12 mánaða gömul börn hefur sýnt sig hafa mjög litlar aukaverkanir (aðallega léttur roði og smá eymsl á stungustað) og fjölskyldusaga um ofnæmi er ekki frábending fyrir bólusetningu. Ég vil því mæla með því að barnið fái bólusetningar skv. hefð enda gefur það barninu bestu mögulegu tryggingu á að verjast þeim sjúkdómum sem um er að ræða í hvert sinn.

Bestu kveðjur,

Geir Gunnlaugsson
Miðstöð heilsuverndar barna
Þönglabakki 1, 109 Reykjavík