Getur Efedrín skaðað fóstur?

Spurning:

Góðan dag.

Ég er með spurningu sem liggur mér þungt á hjarta. Ég er nýbúin að uppgvötva að ég er ófrísk – það var ekki planlagt í þetta skipti (á eitt barn fyrir). Ég er komin ca 5-7 vikur á leið. En málið er að ég er búin að vera í megrun síðastliðinn 1 1/2 mánuð, og hef tekið lyf sem inniheldur efedrín, þetta er eitthvað sem eykur orkuna hjá manni meðal annars (skilst mér!) Getur þetta hafað skaðað fóstrið? Á ég að láta lækninn minn vita af þessu efni? Vinsamlegast svarið fljótt …….andvökunæturnar eru farnar að láta á sér kræla….

Takk fyrir.

Svar:

Sæl og til hamingju!

Svo ég viti til eru ekki þekkt tilfelli þess að efedrín hafi haft neikvæð áhrif á fósturþroska (ekki jákvæð heldur). Engu að síður er möguleiki á því að efnið valdi hjartsláttaróreglu hjá fóstrinu og þar sem litla krílið þitt er komið með hjarta og það farið að slá (byrjar að slá á 21. degi) mundi ég bíða með megrunina, allavega hætta að taka efedrínið. Þó svo að það sé örlítil hætta á að efedrínið hafi getað skaðað fóstrið þitt mundi ég ekki hafa áhyggjur, að mínu mati eru líkurnar hverfandi.

Kveðja,
Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur