Getur hegðunin bent til þráhyggju?

Spurning:
Ég hef áhyggjur af litlu frænku minni. Hún er 6 ára og er með ofboðslegar þráhyggjur, hún er alltaf að þvo sér um hendurnar og þefa af þeim. Hún fer ekki í föt fyrr en hún er búin að fullvissa sig um að flíkin sé hrein og hnökralaus. Hún situr og tínir hnökra af sokkum, úlpu og peysum í langa stund áður en hún fer í. Hún leggst ekki upp í rúm nema að farið sé með rúmfötin út og þau hrist, lakiðog allt áður. Tekur breytingum mjög illa og er með mikið skap. Hún safnar öllu, frá nammipokum til leikfanga. Getur verið að hún sé með þráhyggju og árátturöskun?

Svar:
Sæl.
Já einkennin sem þú lýsir benda til áráttuhegðunar. Gerður er greinarmunur á áráttu og þráhyggju og er þá talið að áráttan sé viðbragð við þráhyggjuhugsunum. Árátta/þráhyggja er kvíðaröskun og byggist á að áráttan er leið til að minnka kvíðann sem kemur frá hugsunum sem skjótast upp í hugann (intrusive thoughts). Talið er að sjálf áráttuhegðunin viðhaldi kvíðanum af því þessi hegðun er yfirleitt í tengslum við það að fyrirbyggja að eitthvað slæmt gerist. Meðferð er því yfirleitt byggð á að stöðva hegðunina til að sýna einstaklingnum að það gerist ekkert slæmt þó áráttuhegðunin (öryggishegðun) er ekki til staðar. Með fullorðna er yfirleitt reynt að vinna með skekktar túlkanir á atburðum ásamt því að stöðva hegðunina sjálfa þegar kvíðaáreitið er til staðar (t.d. hnökramikil peysa). Með ung börn er þó erfiðara að beita viðtalsmeðferð en þó er það hægt. Þá þarf að tengja saman viðtalsmeðferðina við verkefnum sem foreldrar þurfa að gera heima. Foreldrum er leiðbeint hvernig þau geta rætt við börnin og hvaða leiðir séu bestar til að stöðva hegðunina. Í dæmi þínu getur þó verið um fleira að ræða. Til dæmis tengist svona hegðun stundum athyglisbrest og einnig tourette. Sem dæmi þá er frænka þín að þefa af hlutum sem getur verið partur af annarri hegðun (tics eða jafnvel tourette). Best er fyrir foreldra frænku þinnar að óska eftir greiningu hjá skólasálfræðingi eða sálfræðingi sem sérhæfir sig í greiningu barna. Þegar greining er komin best að sálfræðingur leiðbeini foreldrum og barni um frekari meðferð.
Annars getur þú lesið meira á neðangreindum síðum:

http://www.aacap.org/
http://www.baltimorepsych.com/anxiety.htm#Obsessive-Compulsive%20Disorder%20in%20Children%20and%20Adolescents

Gangi ykkur vel.
Brynjar Emilsson sálfræðingur