Getur psoriasis læknast af sjálfu sér?

Spurning:
Rakarinn minn benti mér á að ég væri kominn með nokkur psoriasissár í hársvörðinn. Fyrir þann tíma hélt ég að ég væri með mikla flösu, því það bókstaflega snjóaði úr höfðinu og skegginu á mér þannig að skyrtan varð sóðaleg bak og fyrir á hverjum degi. Heimilislæknirinn minn staðfesti að þetta væri psoriasis. Ég hafði farið á doktor.is eftir umsögn rakarans, en áður en ég fór til heimilislæknisins. Þar sýndist mér að ráðlegt væri að taka inn lýsi vegna A & D vítamínanna svo og Omegasýrunnar. Ég byrjaði strax að taka inn lýsi, sem ég hafði ekki gert í nokkuð marga mánuði. Það var eins og við manninn mælt, að á örfáum dögum snarminnkaði ,,snjókoman“ og ég finn ekki lengur fyrir sárunum í hársverðinum, en áður hafði ég klórað ofan af þeim svo úr blæddi. Þá vissi ég ekki að þetta væru psoriasissár. Er eðlilegt að fá psoriasis í fyrsta sinn á gamals aldri? Er eðlilegt að psoriasis læknist að sjálfu sér eða með tilkomu lýsis eingöngu?

Svar:
Komdu sæll. Þakka þér fyrirspurnina.
Ég tel að ef þú ert kominn með staðfesta greiningu um að þú sért með Psoriasis – að þú þá gerir þér grein fyrir að þetta er langvinnur húðsjúkdómur. Ef þú hefur einu sinni fengið psoriasisútbrot geta þau brotist fram aftur hvenær sem er ævinnar. Mjög mismunandi er hve oft fólk fær útbrot. Sumir hafa meira og minna stöðug einkenni á meðan aðrir fá etv. einungis einkenni á margra ára fresti. Talið er að eftirfarandi þættir geti kallað fram psoriasisútbrotin:
Sýkingar, sérstaklega hálsbólga – andlegt álag og streita – áfengi og reykingar eru taldar geta valdið versnun sjúkdómsins auk ýmissa lyfja. Ég samgleðst þér með að hafa haldið einkennum niðri með inntöku lýsisins sem er allra meina bót auk þess sem ég er viss um að þú hugir vel að mataræði þínu, hollustu fæðunnar sem þú neytir auk þess sem þú ástundir heilbrigðan lífsmáta því það geta margir þættir stuðlað að því að halda einkennum í skefjum.
Ég ráðlegg þér að hafa samband við húðsjúkdómalækni og/eða SPOEX – Samtök psoriasis- og exemsjúklinga sem eru til húsa í Bolholti 6, 105 Reykjavík þar sem þú átt að geta fengið frekari upplýsingar um sjúkdóminn og meðferð hans. Skoðaðu jafnframt www.spoex.is

Bestu kveðjur, Hrönn Guðmundsdóttir, hjúkrunarfræðingur