Getur sólhattur leitt til ófrjósemi karla?

Spurning:

Ég á þriggja ára gamlan son sem þjáðst hefur af barnaexemi og eggjaofnæmi. Mér var ráðlagt að láta hann taka inn sólhatt. Nýlega heyrði ég hinsvegar að sólhattur gæti leitt til ófrjósemis hjá körlum og lét hann snarlega hætta inntöku hans. Mér var sagt að það hefði verið þáttur á einhverjum fjölmiðlinum, ekki alls fyrir löngu þar sem þetta hafi komið fram. Er eitthvað til í þessu?

Svar:

Innihaldsefni í sólhatti geta verið mjög mismunandi, eftir því hvaða plöntutegund og plöntuhluti er notaður og hvaða vinnsluaðferð er beitt.

Sólhattur er aðallega notaður við sýkingum og sem fyrirbyggjandi gegn sýkingum. Vísbendingar um þessa verkun hafa komið fram í rannsóknum á mönnum en ekki staðfestingar.

Ég hef ekki heyrt að sólhattur geti leitt til ófrjósemis hjá körlum. En ef vísindamenn telja það þá eru líkur fyrir því að svo sé og því ekki áhættunnar virði að taka sólhatt.

Kveðja,
Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur