Getur verið að ég sé með þvagfærasýkingu?

Spurning:
Það er ekki langt síðan ég greindist með þvagfærasýkingu, sem ég er gjörn á að fá. Ég veit ekki hvort ég er komin með hana aftur, því þegar ég vakna við að fara á klósett, þá er ég með þyngsli og verk í kviðnum eftir að hafa verið á klósetti. Getur þetta verið enn ein sýkingin? Er bara sýking ef það er sterk lykt af þvagi?

Svar:
Þvagfærasýkingar eru mjög algengar hjá konum og er annars vegar skipt í einfaldar neðri sýkingar og er þá átt við hefðbundnar blöðrubólgur og hins vegar efri sýkingar sem eru alvarlegri vegna sýkinga í nýrum. Miklu skiptir að ef þú ert ,,alltaf" að fá sýkingar, þá er ástæða til að láta kanna orsakir sýkinganna nánar og hvort e-r undirliggjandi orsök finnist sem unnt er að leiðrétta eða meðhöndla. Aldur og heilsufar ráða einnig nokkru um það hvaða rannsóknir eru ráðlagðar. Margar konur hafa samt sem áður blöðrubólgueinkenni án þess að hafa staðfestar sýkingar og þurfa þá aðra meðferð en t.d. venjuleg sýklalyf. Það er ekki hægt að treysta á vonda lykt sem vísbendingu um sýkingu.

Bestu kveðjur, Valur Þór Marteinsson, þvagfæraskurðlæknir