Glýkemíustuðull (sykurstuðull) – hollusta, megrun

Spurning:

Sæll.

Fyrir um tveimur árum síðan gerði ég átak í mataræði sem byggði á því að borða eftir glykemíu index, þ.e.a.s. að forðast fæðu sem var yfir ákveðnum glykemíumörkum. Helstu fæðutegundir sem ég forðaðist voru hvítur sykur, hvítt hveiti, hvít hrísgrjón og kartöflur. Þetta varð nú talsvert mál þegar upp var staðið, þar sem fyrrnefndar fæðutegundir er að finna í miklum hluta af unnum matvælum sem á borðstólnum eru. Þetta þýddi það að við þurftum að elda mikið sjálf, en það getur nú líka verið gaman. Það er skemmst frá að segja að þessi mataræðisbreyting varð nánast umsvifalaust til góðs. Ég hafði verið að reyna að grenna mig í nokkra mánuði með hefðbundnum aðferðum, þ.e.a.s. með því að hreyfa mig meira og skera niður hitaeiningar og borða fituminna fæði, en algerlega án árangurs. Nú brá hins vegar svo við að ég léttist hratt og örugglega. Ég léttist um rúmlega 10 kg á ca. 2-3 mánuðum, á sama tíma og ég var að borða betur (meira!) en nokkru sinni fyrr. Ég efast um að ég hafi verið að láta ofan í mig minna en 4000 hitaeiningar á dag. Á sama tíma hætti ég nánast alveg að hreyfa mig. Síðan ég tók þetta mikla átak er ég orðinn eilítið kærulausari með mataræðið, en held mig þó eftir fremsta megni við það að borða ekki sykur, hveiti og kartöflur, þ.e. það sem hækkar blóðsykurinn of mikið. Ég hef ekki þyngst aftur og er því um varanlegt þyngdartap að ræða.

Það sem mér þykir áhugavert við þennan árangur minn er að hann er algerlega á skjön við margt sem næringarfræðingar halda fram. Mér þætti þess vegna gaman að heyra þína skýringu á því hvernig stendur á því að þetta gekk svona vel hjá mér. M.v. það sem næringarfræðingar tala um er það fullkomin þversögn að maður geti stóraukið kaloríuinntöku sína, minnkað hreyfingu, en á sama tíma létt sig svo um munar.

Með von um svar.

Svar:

Sæll.

Næringarfræðingar/næringarráðgjafar eru vel meðvitaðir um kosti og galla þess að meta fæðu eftir glýkemíustuðli/sykurstuðli. Til útskýringar þá er glýkemíustuðull mælikvarði á hve hratt kolvetni úr fæðu skila sér út í blóðið miðað við hreinan glúkósa (þrúgusykur).

Áhrif mataræðis á blóðsykur

Áhrif matar á blóðsykur fer eftir ýmsu, eins og til dæmis:
meltanleika sterkju í fæðu.
samverkan sterkju og próteina í fæðu.
magn og tegundum fitu, kolvetna og trefja í fæðu.
formi fæðunnar (þurr-, mauk- eða drykkjarform; fín- eða grófmulin; matreiðsluaðferðum og áfram mætti telja).

Samverkan þessara þátta hefur áhrif á sykurbúskapinn hvað varðar stöðugleika og sveiflur á sykurmagni í blóði. Þegar hraði kolvetna úr hinum ýmsu afurðum út í blóðið í formi glúkósa er athugaður kemur ýmislegt áhugavert í ljós. Ef ís er til að mynda borðaður einn sér skila kolvetnin sér seinna út í blóðið ef miðað er við þau kolvetni sem er að finna í kartöflum, svo framarlega sem þær eru borðaðar einar sér. Ástæðan er sú að samsetning fæðunnar hefur áhrif á það hve hratt kolvetnin skila sér út í blóðið. Þennan þátt er mjög mikilvægt að hafa í huga því að máltíð samanstendur yfirleitt af ýmsum fæðutegundum. Ef kartöflur eru borðaðar með próteinríkum mat eins og fiski og fituríkum mat, til dæmis smjöri, fara kolvetnin úr kartöflunum hægar út í blóðið en ef þær eru borðaðar einar sér. Þess vegna eru flestir sérfræðingar á þeirri skoðun að í sjálfu sér hafi það lítið að segja að læra einhvern lista þar sem afurðir eru mældar á einhverjum skala eftir því á hvaða hraða kolvetnin leita út í blóðið. Næringarráðgjafar og næringarfræðingar sem vinna með feitu fólki reyna því að kenna því að finna sín orkutakmörk (hitaeiningaþörf) og læra inn á eðlilega samsetningu orkuefnanna og dreifingu niður á máltíðir. Í grófum dráttum er áhersla lögð á reglubundnar máltíðir, ríkulega neyslu á flóknum kolvetnum (sterkju), lágmarksneyslu á dísætri fæðu, hámarksneyslu á trefjaefnum og hóflega fituneyslu.

Ég vil hér vitna í ágæta Morgunblaðsgrein frá 1. nóvember 2000 eftir kollega minn Ingu Þórsdóttur sem er prófessor í næringarfræði við Háskóla Íslands og formaður Manneldisráðs. Þar er Inga að svara fyrir fullyrðingar sem Jón Bragi Bjarnason, lífefnafræðingur, viðhafði í Dagblaðsviðtali 21 október. En þar heldur Jón Bjarni því meðal annars fram að sykur sé fíkniefni og bendir á að sá matur sem fólk ætti að fara varlega í að borða vegna þess að hann hafi háan sykurstuðul (glýkemíugildi) séu hveiti, pasta, margar morgunkornstegundir, kartöflur, hvít hrísgrjón, rófur, gulrætur, hveitibrauð, kökur, sælgæti og bjór: Þar leggur Jón fram sykurstuðultöflu og dæmi um afurðir sem sjá má í töflunni og eru dæmdar mjög slæmar, vegna þess að þær hafa hátt glýkemíugildi, eru kartöflur, rófur, hrískökur, cheerios, vatnsmelóna, heilhveitikex og bananar!

Gefum Ingu Þórs orðið: ”Því var haldið fram að matur sem gefur svokallaðan háan glýkemíustuðul væri eitraður eða óhollur fyrir fólk sem vill léttast, og að feitur maður og próteinríkur matur væri hollur og góður fyrir þetta sama fólk. Hvað er óheppilegt við slíka matarkúra? Fyrir það fyrsta þarf að velja vel lista yfir glýkemíustuðla ef á að nota þá, en vel valdir slíkir listar gefa sannarlega upplýsingar um gæði kolvetnaríkra fæðutegunda. Sá listi sem hefur verið flaggað nýlega í hérlendis síðdegisblaði byggðist á aðferðafræðilega röngum forsendum og var því ónothæfur. En jafnvel vandaðir slíkir listar eru ekki gallalausir. Hafa má áhrif á hátt blóðsykursvar, eða háan glýkemíustuðul fæðutegunda eins og franskbrauðs, kartaflna, pasta og hvítra hrísgrjóna og lækka hann með því að borða í sömu máltíð grænmeti eins og rótarávexti og kál. Grænmetið hægir á meltingunni og upptöku kolvetna úr meltingarvegi í blóð. Undirrituð skrifaði doktorsritgerð sem fjallaði meðal annars um glýkemíustuðul og hefur fylgst vel með á því sviði síðan.”

Ég vil að lokum hvetja þig og alla aðra til að sýna dugnað í að neyta grænmetis og ávaxta eins og gulrætur, kartöflur, vatnsmelónur og banana. Enda ætti öllum að vera ljóst hollustugildi þessara afurða og eitt er víst að það er nánast útilokað að fitna af slíkum mat. Og varðandi það að þú hafir lést eftir að hafa aukið hitaeininganeysluna upp í 4000 hitaeiningar þá er það á skjön við allt sem ég hef lært.

Kveðja,
Ólafur G. Sæmundsson, næringarfræðingur