Gynecomastia og léleg sjálfsmynd?

Spurning:
Góðan dag
Ég vil spyrjast fyrir um það sem kallast ,,gynecomastia". Ég er fullviss um að ég þjáist af þessum kvilla, og vil fá að vita hvað er hægt að gera við þessu. Ég hef frá því að ég var ungur verið með svona fitubrjóst og hef verið lagður í einelti af þeim sökum. Ég er orðinn mjög örvæntingafullur á ástandi mínu og sárþrái að geta verið ánægður með líkamsvöxt minn. Ég er mjög óöruggur með mig og með mikla minnimáttarkennd af þessum völdum. Ég hef í nokkur ár verið að glíma við aukakílóin, eins og staðan er í dag þá þarf ég að missa svona 25-30 kíló. Ég hef reynt ýmislegt eins og t.d. líkamsrækt, ýmsa megrunarkúra, breytt mataræði, náttúrulyf og einnig lyfin Xenical og Reductil. En allt án nokkurs sjáanlegs eða tilfinnanlegs árangurs. Ég er kominn á þann punkt að ég hef enga trú á sjálfum mér til að ná nokkrum árangri í þessum málum og þunglyndið og vonleysið er algjört, ég er búinn að missa alla löngun á því að láta sjá mig á almannafæri og hef skiljanlega einangrast mjög af þeirri ástæðu.

Svar:

Það sem að þú ert að lýsa er því miður algengt og vaxandi vandamál. Að losna við aukakílóin er því miður mjög erfitt. Ég ráðlegg þér að hafa samband við sérfræðing í innkirtlasjúkdómum sem að myndi skoða þig og taka blóðprufur til að athuga hormóna hjá þér til að kanna hvort að einhverjar hormóna truflanir liggji þar að baki. Það er sjaldnast að maður finni eitthvað slíkt. Að þessu loknu gæti hann/hún síðan vísað þér á lýtalækni til að láta fjarlægja brjóstin (bjóstaminnkun eins og gert er á kvennfólki). Ég vona að þetta svari þínum spurningum.

Ragnar Bjarnason Dr Med, sérfræðingur í innkirtlasjúkdómum barna og unglinga.