Háþrýstingur með háum toppum?

Spurning:
Góðan dag.
Ég er 33ára gömul kona og hef þjáðst af háþrýstingi síðan í haust og er á lyfjameðferð en það gengur svona upp og ofan að ná tökum á þessu. Ég er ekki með neina áhættuþætti aðra en reykingar og allar rannsóknir verið framkvæmdar til að útiloka ýmsa kvilla og ekkert komið útúr því.
Þannig er að ég er ágæt flesta daga – nokkuð há svona miðað við eðlilegt fólk, en svo á nokkurra vikna fresti er eins og ég rjúki upp og þrýstingurinn mælist alveg uppí 170/117 og svipaðar tölur og þessu fylgir mikil vanlíðan, streita, spenna, höfuðverkur o.þ.h. Þetta getur staðið yfir frá nokkrum dögum uppí viku og þá fellur allt í ,,eðlilegt" horf. Málið er að þessa daga sem þetta stendur yfir þá rokka ég upp og niður, ef ég ligg og hvílist heila daginn þá lækkar þrýstingurinn kannski niður í 100 neðri mörk, en um leið og ég þarf að fara á stjá og vesenast fer hann fljótt upp aftur.
Málið er að ég veit ekki hvað ég á að gera þegar þessi ,,köst" koma. Á ég að vera að vinna (hef verið heima núna í tvo daga vegna þessa og áður send í 2vikna frí útaf þessu) eða hvernig á ég að haga þessu? Ég hef reynt að meta þetta sjálf núna uppá síðkastið, fer af stað í vinnu þegar þrýstingurinn er kominn í 100 a.m.k neðri mörk en ég veit ekki hvort ég sé að leika mér að eldinum eða hvað, kann ekkert á að vera með svona vandamál og nenni ekki alltaf að vera að hringja hérna niður á læknavaktina – þess vegna skrifa ég hér. Vona að ég hafi gefið nógu góðar upplýsingar. Kv.

Svar:

Blóðþrýstingur sem sýnir háa toppa, sem fara verulega yfir eðlileg mörk geta átt sér nokkrar skýringar, svo sem almennt aukið álag, áhrif mataræðis, s.s. saltneyslu og sælgæti eða áfengisneyslu. Þá geta efnaskiptasjúkdómar verið fyrir hendi sem ekki er víst að almennar blóðþrýstingsrannsóknir hafi afhjúpað. Þá eru mögulegir sjúkdómar í nýrum og nýrnahettum sem leita þyrfti að svo og nýrnaslagæðum.

Það er því að ýmsu að hyggja sem læknir þinn þyrfti að fara yfir með þér og ekki víst að á þessu öllu hafi verið tekið.

Kveðjur Uggi Agnarsson, læknir Hjartavernd