Hafa aukakíló einhver áhrif á frjósemi?

Spurning:

Sæll.

Ég er 22 ára kona og er búin að reyna að eignast barn í 3 ár með manninum mínum en ekkert gengur. Við erum bæði búin að láta rannsaka okkur og eigum að vera frjó. Mig langar að vita hvort að þú hafir einhver góð ráð handa okkur, eitthvað sem að hjálpar t.d. mataræði, hvað beri að forðast og hvað hjálpi til er við kemur vítamínum eða öðru. Ég er búin að taka 3 skammta af Pergotime og er dugleg að taka Fólínsýru og hann tekur lýsi. Við reykjum bæði og ég veit að það hjálpar alls ekki en hvernig er t.d. með hreyfingu? Er mjög vont að drekka kaffi? Og svo er ég kannski ekki í kjörþyngd, hefur það eitthvað að segja? Eiga konur sem eru vel í holdum erfiðara með að eignast börn?

með fyrirfram þökkum.
Ein óþolinmóð.

Svar:

Sæl.

Þyngd sem slík er ekki afgerandi þáttur í frjósemi. Mataræði skiptir ekki máli nema að litlu leyti svo lengi sem ekki er um neina öfga að ræða. Þar sem þú ert búin að fá Pergotime, liggur beint við að að þið hafið bæði verið rannsökuð til fulls, ef ekki þarf að klára það. Eftir það er nokkuð víst að þú verður þunguð innan árs.

Gangi ykkur vel.
Arnar Hauksson dr. Med.