Hægðatregða?

Spurning:

70 ára – Karl

Sem karl kominn á áttræðisaldur, langar mig til að spyrja sérfræðing um það, hvort það sé eðlilegt að vera lengi að losa hægðir, eins og hefur um nokkur ár verið að angra mig.
Hef þó s.l. 10 ár farið bæði í rannsókn hjá Ólafi Gunnlaugssyni og það þrisvar. Svo fór ég til Tómasar Jónssonar og hann ráðlagði mér að taka inn SORBITOL, sem sannarlega hafa mýkt hægðirnar, en tíminn er jafn langur að tæma magann. Ennfremur sagði hann mér að "Æfa upp ristilinn með því að taka Microlax í ca. 10 daga. En þar sem læknar segja mér, að ég megi alls ekki taka Microlax nema takmarkaðan tíma, hef ég hlýtt þeim ráðleggingum. Nú er spurningin sú, hvort einhver önnur lyf séu fyrir hendi, sem flýti hægðum, sem taka megi til langframa.
Ég er hátt á annan tíma að tæma magann.

Með beztu kveðju,
xxxxx

Svar:
Heill og sæll og þakka þér fyrir fyrirspurnina.

Hægðatregða er algengt vandamál og tíðni þess eykst með hækkandi aldri.

Algengasta ástæða hægðatregðu er of lítil vökvaneysla, þ.e. drukkið of lítið ásamt of lítilli neyslu trefjasnauðrar fæðu. Trefjar eru ómeltanlegur hluti fæðunnar og haldast því í þörmum þar sem þær draga til sín vökva til að mýkja hægðirnar. Ákveðin lyf eins og t.d. verkjalyf geta einnig valdið hægðatregðu.

Almennt má segja að þetta eigi að ganga fyrir sig á náttúrulegan hátt þ.e.
án lyfja en það er ekki alltaf svo einfalt. Lyf sem virka á ristilinn sjálfan geta orðið ávanabindandi og því ekki gott að nota þau. Efni sem virka á innihald ristilsins eru betri eins og t.d. sorbitól og husk en það er algjört skilyrði að drekka vel með þeim efnum því annars virka þau bara eins og steypa í þarminum.

Helstu ráðleggingarnar við hægðatregðu eru:

#Trefjaríka fæðu eins og hveitiklíð, gróft korn, ávexti og grænmeti.

#Drekka 8-10 glös af vatni á dag.

#Heitir drykkir eins og te, kaffi eða heitt vatn geta örvað hægðirnar.

#Gott er að drekka sveskju- eða plómusafa.

#Forðast fín brauð, kökur og sykur.

#Hreyfðu þig reglulega því hreyfing hefur góð áhrif á starfsemi þarmanna

#Vendu þig á reglulegar hægðir. Best er að hafa hægðir fyrsta klukkutímann eftir morgunmat. Taktu það rólega og sittu a.m.k. í 10 mínútur hvort sem þú hefur hægðir eður ei.

#Það getur hjálpað að halda dagbók til að reyna að finna út hvað það er sem veldur einkennunum.

#Gyllinæð gerir ástandi verra.

Yfirleitt er hægt að lækna ástandið með hreyfingu, breyttu mataræði og mikilli neyslu vökva.

Vonandi hjálpa þessar ráðleggingar þér, þetta er fyrst og fremst undir sjálfum þér komið því það eru ekki til neinar einfaldar fyrirhafnarlausar lausnir við hægðatregðu.

Bestu kveðjur og ósk um velgengni,

Þórgunnur Hjaltadóttir,
Hjúkrunarfræðingur og ritstjóri doktor.is