Hákarlalýsi?

42 ára – kona

Góðann daginn, mig langaði að spyrjast fyrir í sambandi við hákarlalýsi vs "venjulegt" lýsi ? Annarsvegar hvort er "betra" og hinsvegar ef þú tekur hákarlalýsi, er þá í lagi að taka inn fjölvítamíntöflur (þá er ég að spá í A og D vítamínmagni )sýnist nefnilega ekki standa utaná hákarlalýsinu þannig að ég vildi vera viss…..

Líka í framhaldi af þessari umræðu, væri þá í lagi að taka saman "venjulegt " og hákarla lýsi ( nú hefur maður heyrt að hákarlalýsi eigi að vera svo gott fyrir mann, vill ekki missa af góðum eiginleikum þess ef svo er 😉 og væri þá í því tilfelli í lagi að taka fjölvítamíntöflu líka ?

Held að ég sé búin að spyrja um allt sem mig vantaði að vita í þetta sinn,

fyrirfram takk fyrir svör

Svar:

Sæl og blessuð

Hákarlalýsi inniheldur ekki A- og D- vítamín og því geta þeir sem taka lýsi (s.s. þorskalýsi) neytt hákarlalýsi á sama tíma. Því hefur verið haldið fram að hákarlalýsi geti gagnast ónæmiskerfinu og sé ríkt af alkoxyglýseróli sem örvað getur framleiðslu hvítra blóðkorna.
Alkoxyglýseról fyrirfinnst í heilbrigðum beinmerg og móðurmjólk en þó ekki í því magni sem er að finna í hákarlalýsi. Hákarlalýsi inniheldur minna af
omega-3 fitusýrum en til dæmis þorskalýsi. Það hefur því ekki þá eiginleika sem rekja má til þeirra. Varðandi fjölvítamíntöfluna þá get ég ekki séð að það ætti að skaða þótt þú gæddir þér á einni slíkri samhliða lýsisneyslunni.

Kv., Ólafur Sæmundsson, næringarfræðingur