Hælspori

Fyrirspurn:

Hvað er hælspori?

Svar:

Fóturinn er eins og spenntur bogi þannig að maður stendur aðallega í hæl og tær. Það sem heldur boganum uppi er sinabreiða sem festist í tærnar að framan og hælbeinið að aftan. Í hvert skipti sem maður stígur í fótinn kemur álag á hælinn sem getur verið allt að því tuttuguföld líkamsþyngdin. Þetta álag dempast af fitupúða sem er undir hælbeininu og áðurnefndri sinabreiðu. Við langvarandi mikið eða rangt álag á fótinn geta orðið skemmdir á sinabreiðunni og festingu hennar á hælbeinið. Þessar skemmdir geta verið á formi tognunar, smásprungna og að lokum beinmyndunar í sininni þar sem hún festist í hælbeinið. Þarna getur myndast lítið beinhorn sem kallast hælspori. Einstaka sinnum finnst hælspori fyrir tilviljun án þess að hafa valdið óþægindum en oftast veldur hann óþægindum sem geta verið mjög mikil. Þessi óþægindi lagast í hvíld en þau eru vanalega mest á morgnana þegar farið er á fætur. Ef þrýst er undir hælinn er það mjög sárt.
Orsakir hælspora eru of mikið álag á fótinn og oftast er um að ræða miðaldra, of þunga einstaklinga eða þá sem stunda erfiðar íþróttir einstaka sinnum, t.d. um helgar. Það eykur einnig áhættuna ef ekki er hitað upp fyrir íþróttaæfingar.
Mestu máli skiptir að koma í veg fyrir að hælspori myndist strax og einkenni um óeðlilegt álag á fótinn gera vart við sig með þreytu og verkjum eftir áreynslu. Þá verður að minnka álagið og gera viðeigandi æfingar, einkum teygjuæfingar sem strekkja á kálfavöðvum og sinabreiðunni undir fætinum. Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir að það er ekki hælsporinn sem slíkur sem veldur verkjunum heldur er hann afleiðing af langvarandi of miklu álagi á fótinn. Sjúkdómsgreining byggist á sjúkrasögu með lýsingu á verkjunum, skoðun á fætinum og röntgenmynd.
Þegar hælspori hefur myndast kann að virðast freistandi að fjarlægja hann með skurðaðgerð. Árangur slíkra aðgerða er slæmur og er reynt að forðast þær í lengstu lög. Í staðinn er ráðlegt að gera viðeigandi æfingar, nota heppilega skó og innlegg, taka bólgueyðandi lyf og stundum er sprautað bólgueyðandi barksterum í hælinn. Þetta ber venjulega einhvern og stundum góðan árangur.

Þessi fróðleikur um hælspora er fenginn hjá Magnúsi Jóhannessyni, lækni á slóðinni hér.