Hár blóðþrýstingur?

Spurning:
Ég er 38 ára gömul og 63 kg, 1,72 á hæð og er með of háan blóðþrýsting sem er að sveiflast frá 135/90 upp í 160/105, er með eggjahvítu í þvagi og hvít blóðkorn einnig í þvagi. Auk þessa er ég með stöðugan hausverk og afskaplega skjálfhent. Við blóðprufur kom í ljós smávegis hækkun á Thyroxini en ekki það mikið að það krefðist meðhöndlunar. Nú er ég á penicillíni vegna þvagsins, en n.b. þá hef ég aldrei fengið þvagfærasýkingu. Mér finnst læknirinn minn frekar rólegur yfir þessu en aðrir sem ég umgengst eru ekki rólegir og ég ekki heldur. Eins og áður kom fram þá er ég ekki ólétt, á 3 börn en fékk meðgöngueitrun með það fyrsta.
Getur verið blóðþrýstingurinn sé að hækka núna vegna þess? Hvað á ég að gera og hvert á ég að snúa mér ef ég vil fara til sérfræðings í svona málum? Takk, takk

Svar:

Miðað við upplýsingar hér að ofan þá ert þú með of háan blóðþrýsting sem krefst meðferðar. Kjörblóðþrýstingur er 120 / 80 mmHg, en talið er um eðlilegan blóðþrýsting upp í 135 / 85 mmHg og háþrýsting ef þrýstingurinn er yfir 140-160 / 90 – 95 mmHg. Það er hugsanlegt að þú hafir höfuðverk vegna háþrýstings, en til að greina þetta betur þarf samtal við lækni. Af þinni hæð og þyngd að dæma, þá ert þú grönn kona og því ólíklegt að ofþyngd sé orsök fyrir hækkuðum blóðþrýstingi. Meðgöngueitrun með fyrsta barni er sömuleiðis ekki tengt háþrýstingi seinna meir. Það er eðlilegt að hafa lítið magn (< 300 hg / 24 klst) af eggjahvítu í þvagi. Meira magn getur hins vegar verið afleiðing háþrýstings eða merki um undirliggjandi nýrnasjúkdóm. Hvít blóðkorn í þvagi geta komið í þvagfærasýkingu, eða merki um undirliggjandi nýrnasjúkdóm, t.d. vegna notkunar margra lyfja, s.s. verkjalyfja. Aðrir þættir sem eru algengir og þekktir að orsaka háþrýsting eru streita og notkun getnaðarvarnarpillu. Uppvinnsla háþrýstings felst þess vegna einatt í viðtali og skoðum hjá læknis sem og blóð- og þvagprufu. Fyrsta meðferð er iðulega minnkuð saltneysla, reglubundin hreyfing og slökun. Að öðrum kosti er lyfjameðferð nauðsynleg til að lækka blóðþrýstinginn. Fjöldi lækna sér um þessi vandamál, bæði heimilislæknar, læknar á göngudeild háþrýstings Landspítala Háskólasjúkrahúsi sem og sérfræðingar (s.s. nýrnalæknar) á læknastofum.

Kveðja

Hrefna Guðmundsdóttir, nýrnasérfræðingur

Læknir í Hjartavernd