Hefur Bonjela áhrif á brjóstagjöf?

Spurning:

Kæra Dagný.

Ég er komin með tannrótarbólgu auk þess sem ég þjáist af mjög slæmu munnangri í augnablikinu (heppin að þetta gerist allt á sama tíma). Tannlæknirinn minn skrifaði upp á Kåvepenin við tannrótarbólgunni en sjálf keypti ég mér Bonjela á munnangrið. Ég las að það gæti verið mögulegt að lyfið hefði áhrif á barn á brjósti. Nú segir á leiðbeiningunum að það má nota þetta á börn eldri en 4 mánaða og þar sem sonur minn er rúmlega 5 mánaða er þá ekki óhætt fyrir mig að nota Bonjela og taka Kåvepenin 3svar á dag í viku?

Takk.

Svar:

Sæl.

Ég geri ráð fyrir að þú spyrjir að þessu vegna þess að þú sért með son þinn á brjósti. Þú hefur væntanlega látið tannlækninn vita að þú sért með barn á brjósti og hann valið lyf sem má taka við þær aðstæður. Hvað varðar munnangurslyfið myndi ég í þínum sporum tala við lyfjafræðing í apótekinu og heyra hvað hann segir. Ég tel þó að ef gefa má 4 mánaða barni lyfið þá megi 5 mánaða barn fá það með móðurmjólkinni. Þú getur þó átt von á að drengurinn fái e.t.v. niðurgang og magapílur meðan á þessu stendur – en honum er samt hollara að vera á brjósti áfram meðan þú tekur lyfin en að fá eitthvað annað.

Góðan bata,
Dagný Zoega, ljósmóðir