Heimafæðing?

Spurning:
Hæ, þannig er að ég er að hugsa um að fæða heima, ég á von á mér í desember. Allt gengur vel og er þetta þriðja barnið mitt. En ég er að spá í hvaða rétt hef ég í því og hvernig eru svona fæðingar afgreiddar varðandi tryggingar og þ.h. er ljósmóðirin á launum eða á ég að borga fyrir þessa þjónustu?

Svar:
Þú þarft ekkert að hugsa um laun ljósmóðurinnar – hún fær greitt frá Tryggingastofnun ríkisins. Hafir þú hug á heimafæðingu skaltu sem fyrst ræða það við ljósmóðurina sem sinnir þér í mæðravernd og heyra hjá henni hvort nokkuð sé því til fyrirstöðu að þú fæðir heima. Hún getur svo bent þér á ljósmóður sem sinnir heimafæðingum. Sú ljósmóðir vill sjálfsagt skoða skýrsluna þína og hitta ykkur hjónin til skrafs og ráðagerða.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir