Heimilisfaðirinn drekkur sífellt meira – hvað er til ráða?

Spurning:

Sæll.

Hvert gætir þú ráðlagt mér að leita ef aðstæður eru þannig að heimilisfaðirinn drekkur mikið. Ekki fæ ég hann með mér í ráðgjöf þó ég hafi beðiðhann og ekki vill hann ræða um meðferð. Er ég bara að berja hausnum við vegginn með því að halda þessu sambandi áfram. Þetta samband hefur varað meira og minna síðan 1985 og við eigum 3 börn.

En nú er ég orðin svo þreytt á að vita af honum fullum um hverja helgi oft ekki vitandi hvar hann er. En hef samt ekki vilja gefast upp því stundum hafa komið inn á milli góðar stundir, en þær eru bara hættar að nægja. Hvað myndir þú ráðleggja mér Sr. Þórhallur?

Kveðja.

Svar:

Blessuð og sæl.

Eins og þú lýsir þessu þarf að gera honum á einhvern hátt grein fyrir alvöru málsins, hvert hann er að leiða samband ykkar og fjölskylduna með þessari neyslu sinni. Ætli hann gruni það ekki úr því að hann vill ekki ræða málið við neinn? En það er hætta á að ástandið batni ekki á meðan hann lokar augunum fyrir afleiðingum drykkjunnar.

Er einhver áfengisfulltrúi starfandi í þínu bæjarfélagi/sveitafélagi? Hringdu á bæjarskrifstofuna eða á félagsmálaskrifstofuna og spurðu þar. Hann ætti að geta gefið þér nánari ráð. Þú gætir líka athugað hvort ekki sé starfandi Al-anon félag nálægt þér en það er félag aðstandenda áfengissjúkra. Þau geta líka leiðbeint þér. Að lokum má benda á ráðgjöf Kvennaathvarfsins sem hægt er að hringja í.

Þú þarft að íhuga, e.t.v. með hjálp þessara aðila, hvort þú sért komin að einhverjum mörkum og hvort ekki sé kominn tími til að gera manninum grein fyrir því að hingað verður farið og ekki lengra. Hann verður að skilja alvöru málsins.

Vona að þetta hjálpi þér eitthvað.

Með kveðju,
Sr. Þórhallur Heimisson