Hitatoppar og leki úr auga hjá 2ja ára barni

Spurning:
Góðan daginn.
Mig langar til að forvitnast um hitaköst hjá börnum. Dóttir mín sem er tæplega tveggja ára hefur undanfarið verið að rjúka upp í hita (í um 38-38,5) sem síðan lækkar á skömmum tíma. Mér finnst þetta ekki tengjast of miklum klæðnaði eða öðrum utanaðkomandi áreitum. Samfara þessum hitaköstum verður hún nokkuð slöpp en svo bráir af henni eftir nokkra tíma. Er þetta eitthvað sem ég ætti að hafa áhyggjur af? Annað: ætti ég að láta athuga það ef það er algengt að það dropi úr öðru auganu á henni?

Svar:

Komdu sæl.Meginvandi stúlkunnar virðist vera hitaköstin, þannig að vonandi færðu fullnægjandi svör við því hvernig á að bregðast við þeim. Hvað varðar augun hennar, þá geta ýmsir veirusjúkdómar haft áhrif á augun og jafnframt valdið hitaköstum. Yfirleitt eru augun jafnframt rauð, en þó er möguleiki að einungis sé um útferð og táraflæði að ræða. Aðrir augnsjúkdómar geta valdið þessu, s.s. hvarmabólga og jafnvel getur gláka valdið táraflæði, en það er þó afar sjaldgæft í þessum aldursflokki. Ef þetta reynist vera þrálátt og ef önnur einkenni fylgja þessu, láttu þá augnlækni endilega kíkja á hnátuna.Bestu kveðjur og gangi þér vel,Jóhannes Kári.Komdu sælVarðandi svona hitaköst, þá eru þau algeng í tengslum við tanntöku, og einmitt um tveggja ára eru að koma jaxlar sem geta orsakað hitatoppa. Svo er möguleiki að þetta tengist ofþreytu og hún sé hreinlega útkeyrð og þurfi aðeins að jafna sig, borða og drekka og þá getur þetta bráð af henni aftur. Það að það leki úr auganu á henni, þá hef ég sent fyrirspurn þína á augnlækni okkar og hann mun svara fljótlega varðandi það. Ef þér finnst hitinn vera að koma óeðlilega oft og ef þetta heldur áfram svona og þér finnst þú alls ekki geta tengt það tanntöku, þreytu eða öðru slíku, skaltu láta lækni kikja á hana. Þó ekki sé nema til að útiloka sýkingu eða annað sem gæti verið að valda þessu.Með góðri kveðjuJórunn FrímannsdóttirHjúkrunarfræðingurwww.Doktor.is