Hjartsláttartruflanir og ótti við skyndidauða

Sæll.

Ég er 21 árs kona sem á 15 mánaða gamla stelpu og annað barn er á leiðinni. Um það bil mánuði eftir að hún fæddist fékk ég svimatilfinningu í frekar mörg skipti. Ég var að sjálfsögðu hrædd og þegar ég fékk einkennin þá athugaði ég alltaf púlsinn og hvort ekki væri í lagi með hjartað í mér.

Stundum fæ ég líka hjartsláttartruflanir þegar ég er meðal fólks með litlu stelpuna mína. Ég leitaði til heimilislæknis og hann sagði mér að ég væri með vöðvabólgu vegna streitu og þreytu og sendi mig í sjúkraþjálfun. Það gekk vel.

Eitt haustkvöldið 2000 sat ég svo fyrir framan sjónvarpið og kom þá frétt á stöð 2 um að ákveðin efni sem myndast við streitu geta leitt til skyndidauða hjá ungu fólki. Þessi frétt hafði mjög mikil áhrif á mig þannig að ég spenntist öll upp og fékk hjartsláttartruflanir í um 20 mínútur. Ég hélt í alvöru að ég væri að deyja. Ég fór á læknavaktina sama kvöld og læknirinn sagði mér að ég væri ekki að deyja og að ég þyrfti að komast út og gera meira fyrir sjálfa mig.

Ég fæ stundum hjartsláttartruflanir við ákveðnar aðstæður en þær standa kannski yfir í c.a. 20-30 sekúndur, ef ég t.d. sit fyrir framan sjónvarpið eða leggst upp í rúm fyrir nóttina þá fæ ég stundum aukaslag (eins og hjartað taki kipp). Enn þann dag í dag hefur þessi frétt áhrif á mig þannig að ég er mjög hrædd því ég veit að ég er undir álagi og streitu, sérstaklega af því að ég er alltaf að hugsa um það sem sagt var í þessari frétt.

Er ástæða fyrir mig að vera hrædd um að geta dáið? Af hverju stafar Þessi skyndidauði? Ætti ég að leita til geðlæknis?

Bestu kveðjur og þakkir.

Kæri fyrirspyrjandi.

Þú verður að afsaka að ég hef ekki getað svarað þér fyrr en nú. Eftir lýsingu þinni að dæma þykir mér líklegast að þú sért að fá hjartsláttartruflanir sem oftast kallast aukaslög (eða að hjartað sleppi úr slagi). Þannig truflanir á hjartslætti eru nokkuð algengar einkum hjá ungu fólki. Þær eru alveg hættulausar þó þær geti verið óþægilegar, sérstaklega ef þær standa lengi yfir.

Oftast nær hverfa svona truflanir af sjálfu sér. Þær eru ekki merki um neinn hjartasjúkdóm. Rétt er að benda þér á að vissir hlutir auka á svona aukaslög, sérstaklega kaffi, kók og reykingar. Skyndidauði hjá ungu fólki er afar sjaldgæfur og ég tel ekki að þú þurfir að hafa neinar áhyggjur af slíku.

Með kveðju,
Nikulás Sigfússon, dr.med. fráfarandi yfirlæknir Rannsóknarstöðvar