Hnúður á eista

Spurning:

Góðan dag.

Ég á í vandamálum með eistu. Málið er það að að út frá öðru eistanu er kominn hnúður sem er um 10% af stærð eistans. Ég er náttúrlega skíthræddur um að þetta geti verið krabbi en vona ekki. Þetta hefur þau áhrif, að mér finnst að sáðlát sé orðið minna en var og fullnæging verri. Ég fékk klamidýusýkingu fyrir nokkrum árum og lét meðhöndla hana en fór ekki í eftirskoðun. Getur verið að þetta sé sýking samfara því? Hvert á ég að leita? Til heimilislæknis eða niður á Húð- & kynsjúkdómadeild? Eða til sérfræðings?

Með kveðju.

Svar:

Sæll og takk fyrir fyrirspurnina.

Það er mjög mikilvægt þegar maður finnur, eins og í þínu tilfelli, hnúð og veit ekki af hvaða toga hann er að leita læknis sem þá getur greint hvers eðlis er og skipulagt þær rannsóknir sem eru nauðsynlegar. Því hvet ég þig til að leita læknis sem fyrst til að fá niðurstöðu um hvers eðlis þetta er. Tilvalið er að leita til þíns heimilislæknis og hann getur greint vandamálið og sett upp þær rannsóknir sem hugsanlega gæti þurft að gera.

Gangi þér vel.
Kveðja,
Sólveig Magnúsdóttir, læknir