Hrædd við sprautur og að vera innan um marga

Spurning:

Hæ.

Ég á Kannski við algengt vandamál að stríða en það er að ég er sjúklega hrædd við sprautur. En ég er að spá í hvar ég get fengið einhverja hjálp við þessari hræðslu?

Svo er líka annað, ég er ófrísk og þegar átti að taka úr mér blóð þá var það ekki hægt vegna fælni minnar. Eftir að þau hættu að reyna talar læknirinn við mig og hann heldur bara í hendina á mér og peysan var niðri en samt leið mér illa. Mér fannst óþægilegt að hann héldi í mig og mér leið illa vegna þess að þau voru öll svo nálægt mér.

Læknirinn spyr mig hvort að það hafi einhvern tímann verið gengið í skrokk á mér. Ég neita vegna þess að mamma mín var með mér en hún barði mig oft á um árstímabili og einnig hafði eldri systir mín barið mig oft í æsku.

Einnig líður mér illa innan um mikið af fólki og á erfitt með að vera t.d í Kringlunni um jólin. En þó get ég farið út þar sem mannmargt er ef að ég undirbý sjálfa mig áður.

Er eitthvað sem að þú getur ráðlagt mér að gera?

Svar:

Heil og sæl.

Það er nokkuð algengt að vera sjúklega hræddur við einhverja hluti sem í sjálfu sér eru ekki hættulegir. Eins og þú nefnir sjálf er þetta kallað fælni. Fælni kemur sér afar illa fyrir flest fólk þar sem það þarf yfirleitt að umgangast það sem það hræðist. Þar sem þú ert ólétt eru jafnvel meiri líkur á að þú eigir eftir að komast í tæri við nálar eða sprautur. Eins og þú lýsir er það svo gott sem ómögulegt fyrir þig að yfirvinna þennan ótta, þó svo þú vitir að það sé þér og ófæddu barninu fyrir bestu að vita að allt sé í góðu lagi. Allur þrýstingur virkar öfugt á þig.

Fælni getur orðið til á margan hátt. Það kann að vera að sú slæma reynsla sem þú varðst fyrir þegar þú varst yngri eigi sinn þátt í að skapa þann vanda sem þú lýsir. Fleira getur þó komið til. Ég ráðlegg þér eindregið að leita til sálfræðings sem allra fyrst.

Það er ekki síst mikilvægt vegna þess að þú ert ófrísk en þar að auki er ekki gott að láta fælnina hefta ferðafrelsi þitt. Sálfræðingur getur hjálpað þér að yfirvinna fælnina svo þú getir farið í blóðprufu og einnig aðstoðað þig við að vera ekki hrædd þar sem margt fólk er. Þá er ekki ólíklegt að þér geti gagnast að tala út um erfiða atburði í æsku.

Bestu kveðjur.
Hörður Þorgilsson, sálfræðingur