Hreinsivörur á meðgöngu, hvað má nota?

Spurning:
Halló og takk fyrir frábæran vef. Mig vantar smá ráðleggingar. Þannig er mál með vexti að ég er komin 7 vikur á leið og ég er mjög slæm í húðinni, sérstaklega andlitinu. Áður en ég varð ólétt fékk ég bólur í kringum blæðingar (fór á Roacuttan fyrir tveimur árum og varð fín eftir þá meðferð). Nú er ég alveg útsteypt og lít ferlega út svona:( Má ég nota krem sem heitir Neostrata PHA 10? Hvað á ég að gera? Má ég ekki nota hreinsivörur frá t.d. Lancome? Er einhver vara sem þið mælið með?

Svar:
Svona húðvandamál eru nokkuð algeng á meðgöngu og koma vegna hormónaáhrifa. Þér er óhætt að nota "venjulegar" húðhreinsivörur og krem en ættir að forðast efni sem innihalda mjög virk efni eins og ávaxtasýrur því húðin er næmari á meðgöngu og eins geta ýmis efni borist um húð í blóðrásina. Ef efnin eru varhugaverð á meðgöngu er það þó venjulega tekið fram á umbúðunum.

Þetta er vandamál sem þú verður líklegast að kljást við alla meðgönguna og fátt við því að gera annað en halda húðinni hreinni, forðast að kreista bólurnar og nota rakakrem til að halda húðinni mjúkri og opinni. Mörgum hefur einnig reynst vel að nota hreinsimaska eða "Silikol skin" tvisvar til þrisvar í viku. Prófaðu að ræða málin við snyrtifræðing eða húðsjúkdómalækni, það er fólkið sem sérhæfir sig í húðmeðferð.

Bólurnar hverfa svo yfirleitt fljótt eftir að barnið er fætt.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir