Hreinsun líkamans

Fyrirspurn: Sæl,Ég var að velta fyrir mér varðandi hreinsun líkamans. Er hægt að fylgja eftir ákveðnum "kúr" eða álíka til að hreinsa líkamann af óæskilegum efnum? Hef heyrt að fólk er að nota ákveðna ávaxtakúra, þ.e drekka bara ávaxta í viku – 10 daga til að hreinsa líkamann.   Hef aðeins skoðað netið hvað þetta varðar og datt inn á eina aðferð en veit ekki hversu góð hún er, kallast sítrónusafakúrinn: http://kargi.vortex.is/Hreyfing/sitronusafi.htm Hversu góðann eða gagnlegan teljið þið hann vera. Er kannski önnur aðferð sem myndi gagnast betur?  Aldur: 27 Kyn: Karlmaður

Svar: 

Sæll,

Ýmiskonar hreinsunarkúrar hafa litið dagsins ljós að undanförnu og telja margir að slík úthreinsun sé nauðsynleg með reglulegu millibili. Þessir kúrar eru oft heldur öfgafullir og byggja á hreinsun á líkamanum með mjög mikilli vökvaneyslu, ýmis konar söfum úr ávöxtum og grænmeti, sem reyndar er gott og blessað samhliða annarri fæðu, en ekki næg næring þegar til lengri tíma er litið.

Síðast en ekki síst byggja kúrarnir á ýmiskonar töflum og hylkjum sem nota á samhliða söfunum og öllu vatninu. Margir léttast mikið á slíkum kúrum og telja sig hafa “hreinsast” mikið en þetta þyngdartap er oft vegna taps á vökva og orku úr líkamanum (orka úr vöðvum) sem kemur til vegna lítillar fæðuneyslu.

Heilbrigður líkami sem fær holla næringu, nægjanlegt vatn og hæfilega og reglubundna hreyfingu á að ná að losa sig við öll úrgangsefni um nýru, lifur og húð á formi þvags og svita. Þeir sem eru sjúkir til dæmis með skerta eða óvirka nýrnastarfsemi þurfa að gangast undir svokallaða blóðskilun þar sem sérstök læknisfræðileg tækni hreinsar blóðið.

Besta aðferðin við að halda líkamanum sem heilbrigðustum er að drekka nægan vökva, borða holla og fjölbreytta fæðu sem gerð er úr fersku hráefni og hreyfa sig, allt hluti af heilbrigðum lífsstíl.

Vatn er gífurlega mikilvægt þar sem líkaminn er um 60% vökvi. Gott viðmið er að drekka jafnt og þétt yfir daginn og þannig að þvagið sér ljóst og að nóg sé af því.

Ávextir og grænmeti, gróft mjöl og korn, hnetur, möndlur og fræ skipa stórann sess í slíkri samsetningu en kjöt, fiskur, egg og mjólkurvörur eru einnig nauðsynleg til þess að næringarlegt jafnvægi náist. Einnig viðheldur það fjölbreytni, ánægju með matseðilinn og hæfilegri mettunar tilfinningu sem við öll þurfum að ná. Mikilvægt er að hafa unna matvöru til að mynda unnar kjötvörur í lágmarki þar sem gæðin eru lítil og næringargildið sömuleiðis.

Hreyfingin setur svo punktinn yfir i-ið með því að auka blóð- og súrefnisflæði um líkamann sem eykur flutning úrgangsefna þannig að líkaminn losi sig við þau með þvagi og svita. Hreyfing kemur einnig hreyfingu á ristilinn sem hjálpar við að halda hægðunum reglulegum. 

Með því að vanda matreiðslu og framreiðslu á mat má einnig auka á hollustuna svo um munar sem dæmi er hollara að nota til ólífuolíu á salatið heldur er tilbúna salatdressingu.

Af því sem sagt er hér að framan er ljóst að áðurnefndir hreinsunarkúrar eru óþarfir en heilbrigður lífssíll það sem öllu skiptir. 

Kveðja,

Fríðu R. Þórðardóttur, næringarfræðingur