Hreyfing og hormón eftir fæðingu?

Spurning:
Góðan daginn.
Ég er 40 ára og mig langaði að spyrja um tvennt. Annarsvegar er ég nýbúin að eignast barn (fyrir mánuði síðan) og vegna ýmissa aðstæðna léttist ég mikið á seinni hluta meðgöngunnar og hélt því svo aðeins áfram fyrst eftir fæðingu. Þetta leiddi af sér meira át sem er núna aðeins farið að segja til sín. Mig langar að grípa inn í áður en stefnir í óefni og spurningin er því þessi: Má ég fara að æfa (tækjaleikfimi með eftirliti) og hitt, má skipta út kannski einni máltíð á dag með grenningardrykk (t.d Slim fast) þegar brjóstagjöf er í fullum gangi?
Hin spurningin er í sambandi við hormónasprautuna, hversu algengar eru þessar aukaverkanir sem talað er um í sambandi við hana, og líka að ég fékk mígreni af Marvelon pillunnni og langaði þessvegna að spyrja hvort um sama hormón sé að ræða í þessu eða hvort að verið sé að tala um ,,venjulegan" höfuðverk sem aukaverkun? Með fyrirfram þakklæti fyrir svör, kv

Svar:
Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.
Til hamingju með barnið. Öll hreyfing er af hinu góða en aðalatriðið er að fara rólega af stað, sérstaklega ef maður er ekki í formi. Tækjaleikfimi á að vera allt í lagi svo framarlega sem þú ofreynir þig ekki. Allt er gott í hófi og maður þarf að þekkja sín takmörk. Ég þekki ekki nógu vel þessa grenningardrykki til að segja til um hvort það sé í lagi ef maður er með barn á brjósti. Þú þarft að athuga það vel áður en þú byrjar á því. Þar sem það er svo stutt liðið frá fæðingu barnsins skaltu fara gætilega í að reyna að megra þig þú ert engan vegin búin að jafna þig eftir fæðinguna, yfirleitt tekur það konur nokkra mánuði að komast í sitt fyrra horf. Gott er að spá í hvað maður borðar en nauðsynlegt er fyrir brjóstagjöfina að borða fæði úr öllum fæðuflokkum. Reyna frekar að sleppa sætindum og mjög feitum mat.
Hvað varðar aukaverkanir hormónasprautunnar þá verð ég að ráðleggja þér að tala við lækni sem getur svarað því, læknar gefa út lyfseðla fyrir getnaðarvörnum og vita meira um algengi aukaverkana.

Gangi þér vel,
Bestu kveðjur, Ásthildur Gestsdóttir ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.