HSV-2 veirusýking

Fyrirspurn:


Góðan dag, og þakkir fyrir frábæran vef.
 
Fyrir tveimur árum síðan greindist ég með HSV II, m.a. í aftanverðum munni. Ég hef ekki fengið útbrot síðan en grunar að nú sé ég komin með útbrot í munninn. Nú á ég 4 mánaða gamlan son, sem ég er svolítið hrædd um að smita af veirunni.

1) Er líklegt að hann smitist þegar ég kyssi hann, þ.e. að veiran berist með munnvatni mínu á hann, þó sárið sé mjög aftarlega í munninum á mér?

2) Nú veit ég að veiran getur t.d. valdið heilabólgum eða blindu berist hún í augu. Sennilega ber þessi spurning mín vott um smá „paranoju“, en ég læt flakka: Ef sonur minn smitaðist af veirunni, og hún færi að valda einhverjum usla í auganu hans eða heilanum, myndi hann ekki fá hita eða einhver önnur einkenni áður en mikill skaði væri skeður?

Með fyrirfram þökk.

Aldur:
25

Kyn:
Kvenmaður

Svar:

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina,

Sár af völdum HSV-2 í munni er smitandi. Veirurnar berast í munvatn og geta þannig borist á milli með kossum. Þó að slíkir kossar séu meira smitandi milli karls og konu er vel mögulegt að smitefni berist milli móður og barns. Það er líklega algegn smitleið.
Það er ekki hættulegt fyrir barn að fá HSV sýkingu. Algengast er að viðkomandi fái bólgu í munnholið, eitlastækkanir á háls og hita. Veikindi ganga yfir á nokkrum dögum og ekki er ráðlagt að gefa lyf.
Heilabólga er ekki hluti af frumsýkingu. Heilabólga vegna HSV orsakast af gerð HSV-1 og er endurvakning og kemur vanalega fram síðar á ævinni. Getur verið hættuleg en með tilkomu veirulyfja hafa horfur sjúklinga batnað til muna. HSV-2 getur hinsvegar orsakað heilahimnubólgu sem er nánast hættulaust form sjúkdómsins og gengur yfir á nokkrum dögum oft án meðferðar. Tengist fremur sýkingum á kynfærum en í munni.
Allar herpes veirur geta valdið sýkingum í augum. Það er þrálátt og eins og bréfritari bendir á getur orsakað skerta sjón og í versta falli blindu. Slíkt er þó afar sjaldgæft.

Ég ráðlegg bréfritara að gæta að hreinlæti á meðan hún hefur sár í munni. Ekki minnast við barnið á meðan á því stendur og ef barnið setur fingur uppí móður að þrífa hendur þess með sápu. Þessir einföldu hlutir ættu að koma í veg fyrir smit.

Kveðja,
Már Kristjánsson, smitsjúkdómasérfræðingur