Hvað þýðir „polysystemískur“ eggjastokkur?

Spurning:

Sæll Arnar.

Ég er 27 ára gömul og hef verið á pillunni í 8 ár. Síðastliðið vor hætti ég á henni því ég vildi minnka líkur á hugsanlegum aukaverkunum s.s. eymslum í fótum sem komnar voru fram. Ég vildi auk þess láta á það reyna hvort ég myndi léttast því ég hafði ekki þörf fyrir getnaðarvörn lengur (alla vega ekki sem stendur). Tæpum 6 vikum eftir að ég hætti á pillunni hafði ég blæðingar, síðan liðu 9 vikur þar til næstu blæðingar hófust. Mér fannst þetta ekki eðlilegt og fór til kvensjúkdómalæknis. Hann skoðaði mig með sónar og sagði að eggjastokkurinn væri polysystemískur (ég missti hinn eggjastokkinn fyrir slysni við botnlangatöku fyrir mörgum árum). Læknirinn sagði að þessi polysystemíski eggjastokkur gæti haft áhrif á frjósemi mína og þar sem ég hef ekki í hyggju á næstunni að verða ófrísk lét hann mig á sterka pillu (Diane mite). Hann sagði það nauðsynlegt til að minnka líkur á ófrjósemi í framtíðinni.

Það sem mig langar að spyrja þig um er:
Hvað þýðir „polysystemískur“ eggjastokkur?
Hvernig hefur slíkur eggjastokkur áhrif á frjósemi?
Hefur það áhrif á frjósemi að vera einungis með einn eggjastokk?

Bestu kveðjur.

Svar:

Kæri fyrirspyrjandi.

Það sem þú ert að spyrja um hefðir þú átt að vera upplýst um af þeim lækni sem þú leitaðir til ásamt því af hverju hann veldi þessa meðferð.

Þetta er ekki sjúkdómur heldur svokallað ástand. Í stuttu máli þýðir þetta að þú hefur ekki eins oft egglos og kynsystur þínar sem ekki hafa þetta ástand. Það verður ekki alltaf egglos og því safnast eggbúin fyrir í eggjastokknum og mynda blöðrur sem stundum geta orðið stórar. Þetta ástand er mismundandi eftir konum, allt frá því að vera mjög vægt upp í það að vera ríkjandi með engar eða fáar blæðingar á ári og í þeim tilfellum mjög auknum hárvexti á ákveðnum stöðum líkamans. Þetta getur truflað frjósemi sem nemur því að það þarf egglos til þess að verða þunguð. Því getur oft þurft að gefa frjósemislyf til að ná þungun. Þetta ástand veldur ekki nema örsjaldan ófrjósemi því oftast er auðvelt að hjálpa til með lyfjum og þær erfiðustu fá hjálp með tæknifrjógvun. Það sést við almenna skoðun hvar á ferlinu þú ert. Af lýsingu þinni að dæma virðist sem þú sért í vægari kanti þessa ástands. Eitt ráð er þá að hvíla eggjastokkana(-inn) með því að hafa konuna á getnaðarvarnarpillu.

Bestu kveðjur,
Arnar Hauksson dr. med.