Hvað er áfallastreita?

Spurning:
Kæri sérfræðingur.
Hvað er áfallastreita? Telst hún geðröskun? Og þunglyndi? Er það geðröskun eða aumingjaskapur? Ég hljóma kannski grimm með þetta en ég verð að vita þetta.
Takk fyrir vinur4u

Svar:
Kæri bréfritari.

Þú spyrð hvort áfallastreita sé geðröskun. Svarið er eiginlega tvíþætt: Annars vegar er talað um áfallastreitu og hins vegar áfallastreituröskun.

Talað er um áfallastreitu þegar manneskja hefur orðið fyrir skelfilegri lífsreynslu, s.s. orðið fyrir líkamsárás eða nauðgun, og viðbrögðin einkennast af hjálparleysi, ótta eða hryllingi. Þessi áfallastreita líður síðan oftast hjá og hefur ekki verið flokkuð sem geðröskun.

Áfallastreituröskun (Posttraumatic Stress Disorder) flokkast hins vegar sem geðröskun. Greining áfallastreituröskunar felur í sér að:

1) Viðkomandi sýni einkenni eftir að hafa orðið fyrir áfalli. Þessi einkenni felast m.a. í því að endurupplifa hinn skelfilega atburð á einhvern hátt (í vöku eða draumi); að reyna að sneiða hjá aðstæðum og deyfa hjá sjálfum sér allt sem minnir á atvikið (tilfinningalegur dofi og minnisleysi); og að vera ,,ofurviðbrigðinn”, s.s. að þjást af svefntruflunum, einbeitingarerfiðleikum, reiðiköstum, eða að hrökkva í kút af minnsta tilefni.

2) Einkennin vari í meira en mánuð.

3) Einkennin orsaki alvarlegan vanda og vanlíðan í einkalífi og starfi eða daglegu lífi almennt.

Unnið upp úr bæklingnum ,,Líf í kjölfar áfalls – Áfallastreita: Nokkur atriði sem kannast ætti við” í þýðingu Baldurs Hafstað, dósents og útgefið af Pharmanor hf.

Þú spyrð jafnframt hvort þunglyndi sé geðröskun eða aumingjaskapur. Því er fljótsvarað: Þunglyndi er geðröskun/geðsjúkdómur og bendi ég á umfjöllun um það hér á öðrum síðum þessa vefjar. Ég freistast til að lesa það á milli línanna að þú sért eitthvað pirruð út í einhvern sem er kannski þunglyndur eða þjáður af áfallastreitu hvort sem sem sú manneskja er einhver þér tengdur eða jafnvel þú sjálf. Slíkur pirringur og allt litróf tilfinninga eru ósköp eðlilegar þegar einhver í fjölskyldu þjáist af einhvers konar geðröskun. Þá er oft vandasamt að eiga góð samskipti í fjölskyldunni og stundum gott að leita til fjölskylduráðgjafa í því sambandi. Einnig er mikilvægt fyrir þig að afla þér enn frekari upplýsinga til þess að auka skilning þinn á þessum vandamálum eins og þú ert að gera með þessari fyrirspurn.

Með kveðju,
Valdís Eyja Pálsdóttir, M.A. ráðgjafi, Geðhjálp