Hvað er að þvagblöðrunni minni?

Spurning:
Hvað er að blöðrunni minni? Ég fæ bólgur í þvagrás og þvagblöðru og öll einkenni blöðrubólgu en það ræktast ekkert úr þvagprufum. Síðasta kast tók ca. fimm vikur, en þrátt fyrir það hurfu ekki alveg óþægindin. Er eitthvað hægt að gera? Virka einhver lyf? Getur þetta verið sveppasýking í blöðru? Hvernig væri hægt að finna það út? Fyrstu tvær vikurnar er ég í keng og kviðurinn aumur og stanslausir verkir í blöðru og þvagrás og þvaglátaþörf. Með fyrirfram þökk.

Svar:
Ýmsir sjúkdómar geta valdið slíkum einkennum og geta þeir bæði átt upptök sín í þvagblöðru eða þvagrás sem og í nágrannalíffærum eins og þörmum og innri kynfærum þótt það sé ólíklegra. Sjúkdómslýsing þín gæti átt við sérstakan sjúkdóm í þvagblöðru sem ber heitið ,,millivefsblöðrubólga" og varla er um sveppasýkingu að ræða. Það fer hins vegar eftir sjúkdómsgreiningunni hver úrræðin verða og gildir það bæði um lyfjameðferð sem og aðra sérhæfðari meðferð. Það er líklegt að þú þurfir að undirgangast sérstakar rannsóknir eins og þrýstingsmælingu á þvagblöðru sem og blöðruspeglun til nákvæmrar greiningar. Einkenni þín eru afar slæm eins og þú lýsir þeim og það verður að teljast brýnt að þú leitir þér aðstoðar sökum þeirra og mæli ég með því að þú ræðir við þvagfæraskurðlækni. Með kveðju, Valur Þór Marteinsson