Hvað er autonome neuropathia?

Spurning:

Hvað er autonome neuropathia?

Svar:

Autonome neuropathia er skemmd í taugum ósjálfráða (autonome) taugakerfisins. Ósjálfráða taugakerfið sinnir innyflum og ómeðvitaðri starfsemi líkamans. Verkefni þess eru mörg og af ólíkum toga. Dæmi um verkefni eru stjórn á hreyfingum meltingarvegar, samdrætti eða útvíkkun æða í meltingarvegi og húð, hraða hjartsláttar, seytrun vökva úr tárakirtlum og munnvatnskirtlum, samdrætti þvagblöðru og svo mætti lengi telja. Orsakir skemmda í þessum taugum geta verið margskonar en oft eru skemmdir á þessum taugum hluti af stærri sjúkdómsmynd svo sem hjá sykursýkissjúklingum og áfengissjúklingum. Hvaða einkenni koma fram eru mismunandi eftir því hvaða taugar skemmast. Einkenni geta verið meðal annars svimi og yfirlið, þurrkur í augum og munni, óskýr sjón, kulsækni, hægðatregða og ófrjósemi hjá körlum. Venjulega eru einkennin á þann veg að taugarnar missa hæfileika sína til að flytja þau boð sem þeim ber. Til er þó sjaldgæft sé að þær auki virkni sína, þá geta einkennin til dæmis verið; hár blóðþrýstingur, niðurgangur eða truflanir á hjarslætti. Meðferð og batahorfur fara eftir eðli og útbreiðslu skemmdanna.
Með von um að þú sért einhverju nær.

Kveðja
Erla Sveinsdóttir, læknir.