Hvað er blóðgildi?

Spurning:

Góðan dag.

Mig langar til að fá að vita hvað er átt við þegar talað er um blóðgildi.

Kveðja.

Svar:

Sæll og takk fyrir fyrirspurnina.

Blóðið er samsett úr tveimur megin þáttum. Um 55% af blóðinu er svokallaður blóðvökvi sem er gulleitur vökvi sem inniheldur prótein, næringarefni, steinefni, hormón og ýmis önnur efni og um 45% eru rauð blóðkorn, hvít blóðkorn og blóðflögur.

Í daglegu tali, þegar talað er um blóðgildi, er verið að vísa til magns svokallaðs hemoglobins í rauðum blóðkornum, en hemoglobin er samsett úr próteinum og járni og er hlutverk þess að binda súrefni og flytja það til vefjanna þar sem það er losað og nýtt við orkumyndun. Í vefjunum tekur hemoglobinið svo upp koltvísýring sem er úrgangsefni sem myndast við orkumyndun í vefjunum og flytur til lungnanna þar sem honum er andað út.

Rauðu blóðkornin eru framleidd í beinmerg og er meðal líftími rauðra blóðkorna 90–120 dagar. Gömlum rauðum blóðkornum er svo eytt í lifrinni og miltanu, þar eru þau brotin niður, en járnið er flutt aftur til blóðmyndandi beinmergs þar sem það er endurnýtt við myndun á nýjum rauðum blóðkornum.

Meðalgildi hemoglobins er fyrir konur á bilinu 118-158 g/l og fyrir karla 135-175 g /l.

Ég vona að þetta svar spurningu þinni.

Kveðja,
Sólveig Magnúsdóttir læknir.