Hvað er fjörfiskur?

Spurning:

Góðan daginn.

Ég er búin að vera með fjörfisk fyrir ofan annað augað í u.þ.b. sólarhring. Af hverju getur þetta stafað? Er eitthvað til ráða?

Með kveðju

Svar:

Fjörfiskur er hvimleitt vandamál sem flest allir upplifa einhvern tíma á lífsleiðinni. Um er að ræða ósjálfráða síendurtekna samdrætti í vöðvunum í augnlokinu, oftast því efra sem geta staðið í nokkra klukkutíma og allt upp í nokkra daga. Þreyta, álag og andleg streita geta komið þessum ósjálfráðu samdráttum að stað. Ekkert er hægt að gera til að fyrirbyggja fjörfisk nema að forðast þessa álagsþætti. Fjörfiskur gengur yfir af sjálfu sér og ekki er til nein sértstök meðferð við honum. Fjörfiskur er alveg hættulaust ástand. Ekki er ástæða til að hafa samband við lækni nema ef fjörfiskur hefur verið í auganu í meira en viku.
Gangi þér vel,

Kveðja,
Sólveig Dóra Magnúsdóttir, læknir