Hvað er fylgjulos?

Spurning:

Sæl og blessuð.

Dóttir mín var að fæða í gær og þurfti keisaraskurð í skyndi. Hún hefur ekki fengið neinar upplýsingar um hvers vegna en læknir sagði henni í dag að ástæðan væri fylgjulos. Hún á að fá að vita meira síðar skilst mér. En nú langar mig að fá upplýsingar um hvað er fylgjulos? Hvers vegna? Hver er hættan? Er hætta á að þetta komi fyrir aftur?

Kveðja, fáfróð amma.

Svar:

Sæl og til hamingju með barnabarnið.

Fylgjulos er hættulegt ástand sem verður þegar fylgjan losnar frá legveggnum áður en barnið er fætt. Við það blæðir milli fylgju og legveggs, bæði frá móðurinni og barninu og náist ekki að grípa nógu fljótt inn í með keisaraskurði er líf bæði móður og barns í hættu vegna blóðmissis. Ekki er alltaf fyllilega ljóst hvers vegna fylgjulos verður en þættir sem auka hættuna á fylgjulosi eru t.d. háþrýstingur, högg á kvið eða fall, reykingar, kókaínnotkun, fleiri en fimm fyrri fæðingar, stuttur naflastrengur eða gallar á legi og saga um fylgjulos áður. Talið er að u.þ.b. 10% líkur séu á að fylgjulos endurtaki sig hafi það komið fyrir einu sinni.

Vona að þetta svari spurningum þínum og að móður og barni heilsist vel.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir