Hvað er Heimakoma

Spurning:
Ég var að leita að lýsingu á sjúkdómnum "Heimakoma" eða "Erysipelas". Undir hvorugu leitarorðinu fann ég lýsingu á sjúkdómnum.

Svar:
Heimakoma er sýking í húð af völdum keðjusýkla, kemur oft í gegnum litla rispu eða sár. Heimakoma getur lagst á hvaða hluta líkamans sem er, en bakteríurnar mynda sérstök ensím sem auðvelda þeim leið inn í húðina. Einkennin eru roði, bólga og eymsli á afmörkuðu húðsvæði sem kemur á einum til tveimur dögum. Rauð strik geta birst á húðinni sem liggja eftir sogæðunum til næstu eitla. Líkamshitinn hækkar og fram kemur almenn vanlíðan. Ef sýkingin er ekki meðhöndluð geta bakteríurnar komist í blóðrásina og valdið blóðeitrun. Það er því nauðsynlegt að leita strax til læknis ef um heimakomu er að ræða. Meðferðin byggist á sýklalyfjakúr sem virkar yfirleitt fljótt og vel.

Með kveðju
Jórunn Frímannsdóttir
Hjúkrunarfræðingur
Ritstjóri www.Doktor.is