Hvað er heimasótt?

Spurning:

Hvað er heimasótt?

Svar:

Sæll og takk fyrir fyrirspurnina.

Því miður kannast ég ekki við neinn sjúkdóm sem kallast heimasótt, en til er sjúkdómur sem kallast heimakoma (erysipelas) og er hann tilkomin vegna bakteríusýkingar sem verður í vefjum undir húðinni. Á heilbrigðri húð eru, við eðlilegar aðstæður, fjöldinn allur af bakteríum, svokölluð húðflóra og hindrar heil húð að þessar bakteríur komist til vefja sem liggja undir húðinni. Við rof í húðinni geta þessar bakteríur hinsvegar borist til vefjanna, fjölgað sér og valdið sýkingu. Ekki þarf endilega að sjást rof á húðinni, lítil ósýnileg rispa getur verið nóg til að bakteríur komist inn fyrir. Algengast er að sýkingin sé bundin við bandvefinn undir húðinni en getur borist til undirliggjandi vöðva. Einkenni sjúkdómsins eru roði og bólga í húð á afmörkuðu svæði og húðin er heit viðkomu og blöðrur geta myndast. Roðasvæðið fer svo smám saman stækkandi ef rétt meðferð er ekki hafin. Einnig geta fylgt einkenni eins og hiti, hrollur og skjálfti, höfuðverkur og almenn vanlíðan.

Sjúkdómurinn er meðhöndlaður með sýklalyfjum en einnig er gott að hafa hátt undir því svæði sem sýkingin er á til að minnka bjúgmyndun og þörf getur verið á að gefa verkjastillandi og hitalækkandi lyf.

Ég vona að þetta sé það svar sem þú varst að leita eftir.

Gangi þér vel,
kveðja,
Sólveig Magnúsdóttir, læknir.