Hvað er Helicobacter Pylori?

Spurning:

Ég er 36 ára karlmaður. Í um það bil sex ár hafði ég öðru hverju magaverki. Þeim fylgdu uppköst, uppþemba og þyngdartap. Á árinu 1995 fór ég í magaspeglun. Niðurstaðan var sú, að ég hefði bakteríu í maganum, sem heitir Helicobacter Pylori. Eftir meðferð með sýklalyfi varð ég ótrúlega góður af sjúkdóminum og allur annar maður. Meðferðin hefur dugað, þangað til fyrir um það bil viku síðan. Nú finn ég aftur greinilega fyrir sömu sjúkdómseinkennum. Getum við fengið lýsingu á þessu fyrirbrigði á Doktor.is? Er eitthvað, sem ég get gert sjálfur? Ég hef t.d. í huga lyf eða mataræði. Ég vona, að þið getið gefið einhverjar upplýsingar um þennan sjúkdóm.

Svar:

Helicobacter Pylori er eitt af því sem orsakar magasár. Samt sem áður er margt fólk sem hefur fengið þessa magasársbakteríu og gengur með hana án þess að hafa sjúkdómseinkenni. Með því að tengja saman meðferð með magasárslyfjum og tvenns konar sýklalyfjum er hægt, í langflestum tilfellum, að útrýma magasársbakteríunni úr slímhimnu magans. Það kemur ekki fram í erindi þínu hvort í ljós kom við magaspeglunina að þú hefðir verið greindur með magasár eða hvort aðeins var staðfest hjá þér magasársbakterían. Hins vegar bendir hinn góði árangur sem náðist við lyfjameðferðina til þess að bakterían hafi átt þátt í sjúkdómseinkennum þínum. Þó þú hafir nú á ný fengið sömu sjúkdómseinkenni veitir það enga vissu fyrir því að þú hafir sýkst aftur af bakteríunni. Raunar eru líkurnar fyrir því fremur litlar, og ekki er hægt að skera úr um hvað er að þér, með því einu að meta einkennin.

Ég ráðlegg þér því að fara til læknis. Sérstaklega er það áríðandi, ef þú ert aftur farinn að kasta upp og léttast. Hvort þörf er á nýrri rannsókn eða sérstöku mataræði eða jafnvel lyfjameðferð verður að vega og meta eftir nánari sögu og skoðun.

Gangi þér vel.

Kveðja,
Erla Sveinsdóttir, læknir