Hvað er Jónsmessurunni?

Spurning:

Getur þú sagt mér hvað Jónsmessurunni er? Er það eitthvað örvandi?

Kveðja.

Svar:

Jónsmessurunni er jurt sem heitir Hypericum perforatum af hypericaceae ætt. Aðallega eru það blómin og líka eitthvað af blöðunum sem eru notuð af plöntunni. Jónsmessurunni hefur verið notaður gegn þunglyndi, vægu þunglyndi og meðal miklu þunglyndi. Verkunarháttur er ekki þekktur en jurtin inniheldur að minnsta kosti 10 virk efni. Hypericin er eitt af aðal virku efnunum og er það notað til að staðla afurðir með Jónsmessurunna. Hypericin hefur sýnt fram á það í tilraunum að vera hamlandi á MAO virkni (mónó-amín oxidasa) en ekki er vitað um klínískt mikilvægi þess. Einnig hefur hypericin sýnt hamlandi verkun á endurupptöku serótóníns í taugaendum. Hvort tveggja eru þetta verkanir sem sum geðdeyfðarlyf byggja áhrif sín á.

Kveðja,
Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur