Hvað er legbrestur?

Spurning:

Þegar talað er um legbrest sem möguleika á 4. meðgöngu, hvað er þá nákvæmlega verið að tala um?

Ég er að ganga með mitt 4. barn og hin 3 hafa öll verið tekin með keisaraskurði og gengið ágætlega.

Með bestu kveðjum.

Svar:

Kæri fyrirspyrjandi.

Með legbrest er átt við það að gamalt ör í legi geti gefið sig, gliðnað þegar á meðgöngu líður. Þá koma fram ákveðin einkenni s.s. verkir, yfirleitt yfir gamla keisaraörstaðnum, auknir samdrættir og stundum breyttar hreyfingar fósturs. Við slíkar aðstæður getur þurft að grípa fljótt inn í. Þetta er ein ástæða þess að reyna sem oftast að stefna að eðlilegri fæðingu.

Hins vegar þarf að vera vel á verði með þær konur sem hafa farið í keisara áður og enn betur með þeim sem hafa farið oftar eins og þú. Sem betur fer er þetta fremur sjaldgæft og farið fækkandi. Þetta er ekki bundið við fjórða keisara, heldur getur komið upp eftir hvaða aðgerð sem er á legi.

Það er rétt að þú ræðir þetta við þína ljósmóður/lækni svo þau séu líka upplýst um þínar hugrenningar.

Gangi þér/ykkur vel.

Bestu kveðjur,
Arnar Hauksson dr. med.