Hvað er Pantótenat?

Spurning:

Til hvers er Pantótenat notað og við hverju? Hvað er Pantótenenat skortur?

Kveðja, X.

Svar:

Pantótenat eða Pantótensýra er eitt af B-vítamínunum og stundum nefnt B5-vítamín. Eins og með önnur vítamín þá er Pantótenat okkur lífsnauðsynlegt efni sem við fáum með fæðu. Vítamínið er hluti af kóensími-A sem m.a. sér um að mynda orku úr fitu, kolhýdrötum og próteinum. Þótt megin verkun pantótenat sé að myndun orku þá tekur vítamínið líka þátt í græðslu sára og er talið flýta fyrir græðslunni með því að hafa áhrif á frumuvöxt. Uppi eru getgátur um að pantótenat geti aukið líkamlegt atgervi, örvað ónæmiskerfið og dregið úr einkennum liðagigtar. Þar sem ekki liggja fyrir nægjanlegar sannanir á þessum eiginleikum vítamínsins þá er ekki hægt að fullyrða um þessa eiginleika Pantótenats.

Heiti vítamínsins er dregið af gríska orðinu pantos sem merkir allstaðar. Pantótenat finnst enda víða í dýra- og plönturíkinu. Vegna þess að vítamínið finnst víðast hvar í náttúrunni þá eru engin náttúruleg tilfelli um skort á Pantótenati þekkt. Eingöngu hefur verið hægt að framkalla Pantótenat skort með því að gefa tilraunadýrum sérvalið fæði sem ekki inniheldur vítamínið. Einkenni sem koma fram í tilraunardýrum þar sem framkallaður hefur verið Pantótenat skortur eru; þreytueinkenni, truflanir á hjarta- og æðakerfi, meltingarfæratruflanir, sýkingar í efri hluta öndunarvega, húðbólgur, vöðvakrampar og fleira.

Kveðja,

Torfi Rafn Halldórsson,
lyfjafræðingur