Hvað er Rose Hips duft?

Spurning:
Komið þið sæl, á Doktor.is. Svo er mál með vexti að ég keypti mér 1000 mg. C-vítamíntöflur með Rose Hips & bioflavonoids. Getið þið sagt mér hvað Rose Hips duft er? Hvað er átt við með orðinu bioflavonoids? Það er † aftan við Rose Hips og Citrus bioflavonoids. Eru þetta hættuleg og ávanabindandi efni? Bræður mínir og mágkonur hafa verið að furða sig á því hve mikið ég hefi lagt af? Líkast til var ég of upptekinn af því sem ég sá vinstra megin á miðanum á plastdósinni að C-vítamín væri andsýringarefni og því hlyti það að vera gott fyrir mig sem er búinn að ver með þindarstit í rúm 10 ár. Efst á miðanum stendur NOW og er sól þar sem O-ið er. Þessa plastdós fékk ég hjá Rekstravörum, skammt frá Holtagörðum á rúmar 700 krónur fyrir 80 – 90 dögum. Það voru 100 töflur í dósinni þegar ég keypti hana. Auk þess tek ég 500 mg. af E-vítamíni (Magna-lýsi frá Lýsi). Mig minnir að ég hafi einvers staðar séð að það væri gott við brjóstsviða. Ég vonast eftir svari sem fyrst. Virðingarfyllst,

Svar:
Rose Hips er það sem hefur verið kallað rósaber á íslensku. Þetta eru fræhirslur rósarunna. Þau innihalda m.a. C-vítamín og bíflavóníða. Bíflavóníðar eru blanda efna sem af mörgum eru talin auka frásog og nýtingu C-vítamíns í líkamanum. Merkið † er eingöngu notað sem tilvísunarmerki á pakkningunni. Þ.e.a.s. merkið er fyrir aftan heitið í textanum og fyrir framan textann fyrir viðkomandi efni fyrir neðan textann. Þessi efni eru hvorki hættuleg né ávanabindandi. Now C-vitamin er alls ekki andsýringarefni. C-vítamín (ascorbínsýra) er verulega súrt efni og fer alls ekki vel í maga. Hins vegar er talað um að það sé andoxunarefni. Andoxunarefni eru talin draga úr myndun svokallaðra frírra radíkala sem stuðla að myndun krabbameins og æðaþrengingsla. Ekki kannast ég við að E-vítamín hafi nein áhrif á brjóstsviða.

 

Finnbogi Rútur Hálfdanarson

lyfjafræðingur