Hvað er tantra kynlíf?

Spurning:
Sæl Jóna. Hvað er eiginlega tantra kynlíf? Ekki fyrir svo löngu voru sýndir sjónvarpsþáttir um þetta hérlendis en þá bjó ég erlendis og missti af þessum þáttum. Getur þú frætt mig um hvað svona kynlíf snýst?
Einn fróðleiksfús.

Svar:
Í hnotskurn snýst tantra kynlíf um austurlenska jógaheimspeki þar sem kynorka líkamans er virkjuð, með kynmökum, til andlegs þroska. Þessi hugmynd er óneitanlega svolítið fjarlæg íslenskum þankagangi um kynlíf á okkar tímum en allrar athygli verð því jóga þýðir eining og það er vissulega einn þáttur kynlífs. Þeir sem iðka tantra jóga telja að kynlíf sé æðsta gerð einingar. Pör sem iðka tantra jóga nota kynlíf sem ákveðna leið til hugljómunar.

Til að skilja hugmyndafræði tantra jóga verðum við að gleyma vísindalegum hugsunarhætti sem við erum svo gjörn að grípa til í okkar menningarheimi. Okkar menningarheimur er gegnumsýrður af tæknihyggju og veraldlegum gæðum, stundum á kostnað þess að gleyma lífskraftinum sem gefur öllu efni líf og tilgang. Í austurlenskum fræðum snúast hugmyndir manna ekki um líkamann sem vél heldur hinn fíngerða líkama og hina skapandi orku (kundalini) sem ferðast um orkustöðvar líkamans (chakras). Við könnumst helst við þennan fíngerða líkama þegar við fjöllum um hugtök á borð við ,,árur” hér á klakanum.

Í tantra kynlífi á sér stað flókið samspil kynferðislegrar örvunar, fullnægingar og því að halda aftur af sáðláti. Austræn trúarbrögð nýta sér skynfærin fimm (lykt, sjón, heyrn, bragð og snertingu) en bæta síðan við sjötta skynfærinu; huganum.

Parið reynir að vekja kundalini orkuna hið innra, ,,ferðast saman” í upplifun þessa orkuflæðis, í átt að hugljómun. Þessar pælingar eru víðsfjarri venjulegu íslensku kynlífsviðhorfum Jóns og Gunnu. Þó gætum við lært margt af hinu jákvæða viðhorfi sem endurspeglast til kynlífs í tantra jóga. Þar er til dæmis litið á kynlíf sem órjúfanlegan þátt í upplifun æðri máttar. Við komum í heiminn fyrir tilstilli kynlífs og kynorkan er frumkraftur sem fylgir okkur meðan við búum þessa jörð. En til að lifa góðu tantra kynlífi þarf fyrst að koma sér inn í hugmyndafræðina, undirbúa líkama og huga með ástundun margvíslegra æfinga – bæði með og án maka

Jóna Ingibjörg Jónsdóttir
Hjúkrunarfræðingur – kynlífsráðgjafi